Erlent

Beitti neitunar­valdi gagn­vart um­deildum fjölmiðlalögum

Kristín Ólafsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Synjun Salome Zourabichvili forseta Georgíu mun líklega ekki stöðva lögin þar sem ríkisstjórnin hefur meiri hluta í þinginu og getur tryggt framgang þeirra. 
Synjun Salome Zourabichvili forseta Georgíu mun líklega ekki stöðva lögin þar sem ríkisstjórnin hefur meiri hluta í þinginu og getur tryggt framgang þeirra.  AP

Forseti Georgíu beitti í dag neitunarvaldi gegn umdeildum fjölmiðlalögum sem samþykkt voru i þinginu í vikunni og komið hafa af stað mótmælaöldu í landinu.

Lögin lúta að erlendu eignarhaldi fjölmiðla og félagasamtaka. Gagnrýnendur segja þau myndu þrengja töluvert að fjölmiðlum og þau séu enn fremur að rússneskri fyrirmynd. Þannig komst Salome Zourabichvili forseti Georgíu einnig að orði í ávarpi í dag. 

Hún sagðist hafa hafnað rússneskum lögum, lögin væru rússnesk í kjarna sínum og anda og þau brytu í bága við stjórnarskrá landsins. Að auki kæmu lögin til með að koma í veg fyrir að Georgía hlyti aðild að Evrópusambandinu. Þá sagði hún synjunina lagalega rökstudda. 

Synjun Zourabichvili mun þó líklega ekki stöðva lögin þar sem ríkisstjórnin hefur meirihluta í þinginu og getur tryggt framgang þeirra.

Málið vakti sérstaka athygli í fjölmiðlum hérlendis í vikunni eftir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Íslands heimsótti Georgíu ásamt starfsbræðrum sínum frá Eystrasaltsríkjum, og var viðstödd mótmæli gegn lögunum í Tíbilisi höfuðborg Georgíu.

Þórdís taldi þá ekki óeðlilegt að sýna georgískum mótmælendum samstöðu og furðaði sig á misvísandi yfirlýsingum forseta georgíska þingsins eftir fund sendinefndar ráðherrans með honum.

Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin sendu frá sér yfirlýsingu fyrir helgi þar sem þau vöruðu við því að nýju lögin stríddu gegn evrópskum gildum og lögum. Hægt væri að nota lögin til þess að þagga niður í fjölmiðlum og félagasamtökum.


Tengdar fréttir

Spyr hvort eðli­legt sé að ráð­herrar taki þátt í er­lendum mótmælum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði forsætisráðherra að því hvort það hafi verið með vilja og vitund ríkisstjórnarinnar, að utanríkisráðherra hafi farið til Georgíu og tekið þátt í mótmælum. Bjarni sagði Ísland og aðrar þjóðir sem þarna væru ekki taka afstöðu gegn þarlendum stjórnvöldum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×