Fótbolti

Karó­lína með stjörnum á toppi listans

Sindri Sverrisson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur notið sín í botn í búningi Leverkusen.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur notið sín í botn í búningi Leverkusen. Getty/Christof Koepsel

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur verið algjör lykilmaður hjá Leverkusen í vetur, sem lánsmaður frá Bayern München, og hún átti enn eina stoðsendinguna í 3-1 sigri á Duisburg í dag.

Karólína hefur þar með átt sjö stoðsendingar á leiktíðinni en aðeins stórstjörnurnar Klara Bühl hjá Bayern og Alexandra Popp hjá Wolfsburg hafa átt fleiri í þýsku deildinni. „Alvöru félagsskapur“ eins og pabbi Karólínu, þjálfarinn Vilhjálmur Haraldsson, bendir á.

Þar að auki hefur Karólína svo skorað fimm mörk.

Karólína lagði upp annað mark Leverkusen í dag, á 34. mínútu, og var staðan 2-0 þegar hún fór af velli á 62. mínútu.

Duisburg náði að minnka muninn en hin norska Synne Skinnes Hansen, sem kom inn á fyrir Karólínu, skoraði þriðja mark Leverkusen áður en yfir lauk.

Leverkusen er nú með 31 stig í 6. sæti þegar liðið á aðeins einn leik eftir, og gæti mögulega tekið 5. sætið af Hoffenheim.

Ingibjörg Sigurðardóttir var á varamannabekk Dusiburg í dag og kom ekkert við sögu, en liðið er fallið niður um deild, aðeins með fjögur stig eftir 21 leik og hefur enn ekki unnið leik á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×