Körfubolti

LeBron gæti fengið sig lausan frá Lakers og verið án fé­lags í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James hefur spilað fyrir Los Angeles Lakers síðan 2018 en gæti nú fært sig um set.
LeBron James hefur spilað fyrir Los Angeles Lakers síðan 2018 en gæti nú fært sig um set. Justin Ford/Getty Images

Það rignir inn fréttum af Los Angeles Lakers eftir að liðið féll úr leik gegn Denver Nuggets í 8-liða úrslitum vesturhluta NBA-deildarinnar í körfubolta. 

Nú er talið að stórstjarnan LeBron James gæti ákveðið að losna undan samningi sínum hjá Lakers og því verið án félags þegar lið fara að undirbúa sig fyrir næstu leiktíð.

Hinn 39 ára gamli LeBron lék frábærlega í einvíginu gegn Denver en það dugði því miður ekki til. Síðan þá hefur verið talað um að hann gæti hafa spilað sinn síðasta leik en svör LeBron voru heldur loðin þegar hann var spurður út í framtíð sína eftir að Lakers féll úr leik.

Nú er talið líklegt að LeBron, sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Lakers, gæti tekið þá ákvörðun að losna undan samningi og því verið frjálst að semja við hvaða lið sem er.

Að sama skapi er Lakers sagt vera að skoða það að semja við LeBron að nýju til þriggja ára sem og að félagið ku vera opið fyrir hugmyndinni að velja son hans, Bronny James, í nýliðavali NBA-deildarinnar í júní.

Ofan á allt þetta virðist það næsta öruggt að Darvin Ham verði ekki áfram þjálfari liðsins en leikmenn Lakers virtust missa allt traust til þjálfarans undir lok leiktíðarinnar.

Sama hvað gerist í málum LeBron þá má reikna með að það verði nóg um að vera hjá hinu sögufræga félagi í sumar.


Tengdar fréttir

Lakers lætur Ham lík­lega fara

Það virðist sem Los Angeles Lakers mæti til leiks með nýjan þjálfara þegar næsta tímabil í NBA-deildinni í körfubolta hefst.

LeBron James gæti hafa spilað kveðjuleik sinn

LeBron James skoraði 30 stig og átti 11 stoðsendingar fyrir LA Lakers í gærkvöld en það dugði ekki til í leik sem reyndist síðasti leikur liðsins á tímabilinu í NBA-deildinni í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×