Innlent

Bók um krikketsögu Ís­lands hafnað úr „lundabúðavæddri“ deild Pennans

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Til vinstri má sjá deild erlendra bóka sem ekki teljast til skáldskapar í verslun Pennans á Keflavíkurflugvelli. Til hægri má sjá bók Kir Harris, From Lord's To The Fjords: The Saga of Icelandic Cricket. 
Til vinstri má sjá deild erlendra bóka sem ekki teljast til skáldskapar í verslun Pennans á Keflavíkurflugvelli. Til hægri má sjá bók Kir Harris, From Lord's To The Fjords: The Saga of Icelandic Cricket.  Skjáskot/X

Rithöfundur og félagi í Krikketsambandi Íslands gagnrýnir verslun Pennans á Keflavíkurflugvelli fyrir að hafa ákveðið að selja ekki bók hans um sögu íþróttarinnar á Íslandi. Sagnfræðingur segir erlendu bókadeildina í bókaverslunum hér á landi lundabúðavædda. 

Kit Harris skrifaði bókina From Lord’s to the Fjords, sem fjallar um sögu krikkets á Íslandi. Í færslu sem hann birti á X segir hann frá því að verslunin hafi hafnað því að selja bókina. „Vegna þess að þeim þykir krikket ekki nógu þekkt íþrótt fyrir ferðamenn,“ segir Harris og vísar til þess að íþróttin sé sú næstvinsælasta í heiminum.

„Hér má sjá deild bóka á ensku sem ekki teljast til skáldskapar í verslun Pennans á flugvellinum. Bara víkingar. Ef það gerðist eftir 950 eftir krist, er ekki til bók um það,“ segir hann í færslunni.

Myndir af úrvalinu í deildinni lét hann fylgja færslunni. 

Stefán Pálsson sagnfræðingur vakti athygli á málinu á X. „Við Íslendingar höfum furðulega þröngar hugmyndir um hvað útlendingum geti fundist áhugavert í sögu okkar og menningu,“ segir hann og vekur athygli á að Krikketsamband Íslands sé með 130 þúsund fylgjendur á forritinu. 

„Erlenda (lesist: enska) bókadeildin í bókaverslununum okkar hefur verið gjörsamlega lundabúðarvædd. Fyrir utan ljósmyndabækur þá er ekkert selt nema það sé víkingahjálmur á forsíðunni, en þá má það líka vera hvaða drasl sem er,“ bætir hann við. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×