Innlent

Stöðug virkni í nótt

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Enn er töluverð virkni í gosinu.
Enn er töluverð virkni í gosinu. Vísir/Vilhelm

Virknin í gosinu á Reykjanesi hefur verið óbreytt í nótt frá því sem var í gærkvöldi.

Þetta segir Einar Hjörleifsson náttúrúvársérfræðingur sem hefur staðið vaktina á Veðurstofunni. „Bara stöðug virkni í gosinu áfram,“ segir Einar. Hann segir að skjálftavirknin hafi verið mjög lítil á svæðinu en þó einhver virkni við Fagradalsfjall og Krýsuvík, en allt smáskjálftar. „En fái skjálftar við sjálfan kvikuganginn,“ bætir hann við.

Hvað varðar hraunrennslið segir Einar erfitt að segja til um hvert hraunið streymir á nóttunni það muni koma í ljós í birtingu. „Mesta hraunrennslið núna virðist vera í sprungunum sem opnuðust eiginlega til móts við Sundhnúkinn sjálfan. En við sjáum ekki taumana sem eru þarna norðan við og lengst í suður í átt að Suðurstrandarvegi. Það verður að koma í ljós þegar líður á daginn,“ segir Einar Hjörleifsson hjá Veðurstofunni.

Hann bætir við að nokkrir skjálftar hafi orðið í Bárðabungu í nótt en enginn í líkingu við þann sem kom í fyrrinótt og mældist 4,4 stig að stærð. Skjálftarnir í nótt hafi allir verið undir þremur stigum að stærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×