Innlent

Hyggjast breyta banka í ráð­hús

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Norðurþing hefur gert tilboð í gamalt húsnæði Íslandsbanka á Húsavík til að nota undir ráðhús.
Norðurþing hefur gert tilboð í gamalt húsnæði Íslandsbanka á Húsavík til að nota undir ráðhús. Vísir/Vilhelm

Norðurþing hefur gert tilboð í gömlu húsakynni Íslandsbanka á Húsavík og ætlar að breyta því í ráðhús. Mygla fannst í stjórnsýsluhúsinu og hentugra þykir að flytja starfsemina.

Einnig hefur stjórnsýsluhúsið gamla þótt óhentugt að einhverju leyti þar sem það er gríðarlega stórt og telur bæjarstjórnin að hægt sé að fækka fermetrum efstu stjórnsýslu talsvert.

„Það var gert tilboð í húsnæðið með fyrirvara um samþykki byggarráðs. Byggðarráð er að skoða málið og tekur afstöðu í næstu viku,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, í samtali við fréttastofu.

Hún segir að málefni stjórnsýsluhússins hafi verið til skoðunar frá því í sumar í fyrra og að húsnæðið sé einfaldlega of stórt. Stjórnsýsluhúsið var 1325 fermetrar aðeins undir starfsemi stjórnsýslunnar. Bæjarstjórn telji að hægt sé að fækka þeim um fimm hundruð fermetra.

Henti undir megni starfseminnar

„Þetta kemur líka til vegna þess að við erum með starfsmann sem er að vinna að heiman vegna þess að það fannst mygla í kjallaranum á stjórnsýsluhúsinu. Það kom í ljós í kringum áramótin. Við erum ekki með neina starfsemi þar dags daglega. Það eru engar skrifstofur eða neinar mannvistarverur þar niðri. Þetta eru geymslur,“ segir Katrín.

Hún segir allt hafa komið hvað ofan í annað. Íslandsbankahúsið hafi komið á sölu um það leyti sem húsnæðismálin hafi verið til skoðunar og því ákveðið að gera í það tilboð. Það sé um sex hundruð fermetra húsnæði og henti því undir megnið af starfsemi stjórnsýslunnar.

„Við þurfum aðeins að skoða þetta betur. Við þurfum að skoða fleiri kosti af því að við munum ekki koma allri starfseminni fyrir í því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×