Erlent

Heims­frægir lista­menn styðja þátt­töku Ísrael í Euro­vision

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nokkrir þeirra listamanna sem skrifa undir bréfið.
Nokkrir þeirra listamanna sem skrifa undir bréfið. Getty

Yfir 400 listamenn hafa undirritað opið bréf til stuðnings þátttöku Ísrael í Eurovision. Það var Creative Community For Peace sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni en samtökin berjast gegn sniðgöngu gegn Ísrael í menningarlífinu.

„Við trúum því að sameiningarviðburðir á borð við söngvakeppnir séu nauðsynlegir til að brúa menningarleg bil og sameina fólk með alls konar bakgrunn gegnum sameiginlega ást þeirra á tónlist,“ segir í bréfinu.

Meðal þeirra sem skrifa undir eru tónlistarmennirnir Gene Simmons og Boy George, auk leikaranna Helen Mirren, Liev Shreiber, Debra Messing, Selma Blair, Mayim Bialik, Ginnifer Goodwin og Julianna Margulies.

Sharon Osbourne, umboðsmaðurinn Scooter Braun og Ynon Kreiz, forstjóri Mattel, eru einnig á listanum.

Þátttöku Ísrael hefur verið mótmælt víða vegna aðgerða Ísraelsmanna á Gasa. Talsmenn Eurovision hafa hins vegar bent á að keppnin sé ópólitísk; haldin af sjónvarpsstöðvum þátttökuríkjanna og að Ísraelsmenn hafi tekið þátt í hálfa öld.

„Að styðja sniðgöngu Ísrael er stuðningur við aðgerðir Hamas; verðlaun fyrir hryðjuverk og ósamrýmanleg við gildi keppninnar,“ sagði Ziv Nevo Kulman, sendiherra Ísrael í Svíþjóð, þegar kallað var eftir því þar að Ísraelsmönnum yrði bannað að taka þátt.

Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu skipuleggjenda Eurovision um að pólitík rúmist ekki innan keppninnar, var Rússum bannað að taka þátt árið 2022 vegna innrásar þeirra í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Harðneituðu að spila í Ísrael: „UEFA steig sem betur fer inn“

Ísraelska knattspyrnusambandið pressaði stíft á KSÍ og UEFA að fá að halda umspilsleik karlalandsliða Íslands og Ísrael í heimalandinu. KSÍ harðneitaði ítrekuðum beiðnum og UEFA ákvað að leikurinn skyldi haldinn á hlutlausum velli.

Bashar er lifandi flagg í sjálfu sér

„Síðan að ég var krakki hefur mig langað að komast á stóra sviðið og deila því sem ég vil segja með heiminum í gegnum tónlist,“ segir tónlistarmaðurinn Bashar Murad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×