Viðskipti innlent

Far­þegum fjölgaði í janúar hjá Play og Icelandair

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fleiri flugu með Play og Icelandair í janúar en árið áður.
Fleiri flugu með Play og Icelandair í janúar en árið áður. Vísir/Vilhelm

Farþegum í janúarmánuði fjölgaði hjá íslensku flugfélögunum Play og Icelandair. Farþegum fjölgaði um 61 prósent hjá Play miðað við sama tíma í fyrra en sjö prósent hjá Icelandair.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í sitthvorri tilkynningunni frá félögunum tveimur. Í tilkynningu Play kemur fram að félagið hafi flutt 99.704 farþega í janúar en félagið flutti 61.798 farþega janúar í fyrra.

Þá var sætanýting hjá Play í mánuðinum 75 prósent samanborið við 77 prósent í fyrra. Icelandair flutti á sama tíma 225 þúsund farþega í janúar og var sætanýting 69,4 prósent hjá félaginu.

Stundvísi Play í janúar var 78,1 prósent en stundvísi Icelandair var 79,8 prósent. Bæði félög benda á að veður í janúar hafi haft áhrif á stundvísi og raskað flugáætlun.

Alþjóðleg umfjöllun um jarðhræringar hafði áhrif

Bæði Play og Icelandair segja að alþjóðleg umfjöllun um jarðhræringar á Reykjanesskaga hafi haft veruleg áhrif á þróun bókana á fjórða ársfjórðungi. Það hafi haft neikvæð áhrif á sætanýtingu.

Segir í tilkynningu Play að í janúar hafi þó ný sölumet félagsins verið sett sem gefi góðar vísbendingar um að eftirspurnin hafi náð sér aftur. Segir að bókunarstaðan líti vel út fyrir árið 2024 og hafi tekið framförum samanborið við fyrri ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×