Erlent

Fyrr­verandi for­seti Síle lést í þyrluslysi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Pinera er talinn hafa stýrt þyrlunni. 
Pinera er talinn hafa stýrt þyrlunni.  EPA

Sebastian Pinera, fyrrverandi forseti Síle, lést í dag þegar þyrla sem hann ferðaðist með féll ofan í stöðuvatn í suðurhluta Síle. Pinera var 74 ára gamall. 

Forsetinn fyrrverandi var úrskurðaður látinn skömmu eftir að björgunaraðilar mættu á vettvang. Í þyrlunni voru þrír aðrir farþegar sem allir lifðu slysið af. 

Reuters hefur eftir heimildum að Pinera hafi flogið þyrlunni sem endaði ofan í vatninu, en staðfesting á því hefur ekki fengist frá yfirvöldum. Þá liggur ekki fyrir hver fyrirhugaður áfangastaður ferðarinnar var.

Gabriel Boric forseti Síle lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg í landinu vegna slyssins. Pinera gegndi forsetaembættinu tvísinnis, fyrst árin 2010 til 2014 og síðar árin 2018 til 2022. 

Eitt stærsta verkefni hans í embætti var umsjón með björgunaraðgerðum á 33 námuverkamönnum sem festust undir Atacama-eyðimörkinni árið 2010. Atburðurinn vakti heimsathygli og varð síðar viðfangsefni bíómyndarinnar The 33 sem kom út árið 2014. 

Sílebúar leggja blóm á minnisvarða um Pinata. EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×