Innlent

Eftir­lýstur hælis­leitandi hand­tekinn með tvær milljónir í reiðu­fé

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Maðurinn situr nú í gæsluvarðhaldi.
Maðurinn situr nú í gæsluvarðhaldi. Vísir/Vilhelm

Karlmaður sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af fyrr í mánuðinum reyndist eftirlýstur hælisleitandi. Við leit á manninum fundust tvær milljónir króna í reiðufé. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Lögreglan á Suðurnesjum handtók manninn aðfararnótt sunnudagsins 3. september síðastliðinn og eins og fyrr segir fannst mikið magn reiðufjár: í evrum, dollurum og íslenskum krónum. Auk reiðufjárins fannst lítið magn af ætluðum kannabisefnum. 

Í ljós kom að maðurinn hafði verið eftirlýstur af stoðdeild ríkislögreglustjóra um nokkra hríð. Maðurinn kom hingað til lands í júní í fyrra en Útlendingastofnun synjaði beiðni um alþjóðlega vernd í október sama ár. Kærunefnd útlendingamála staðfesti þann úrskurð í desember og bar honum því að víkja af landi brott í janúar á þessu ári. Það gerði maðurinn ekki.

Þegar að maðurinn hafði verið handtekinn óskaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum eftir því að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli laga um útlendinga, til að hægt væri að vísa honum sannanlega úr landi. 

Í úrskurði héraðsdóms segir að maðurinn hafi ekki yfirgefið landið þrátt fyrir að fyrir lægi fullnaðarákvörðun íslenskra stjórnvalda um brottvísun. Þegar vísa átti manninum úr landi fyrr á þessu ári lét hann ekki ná til sín, þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Maðurinn hafi hvorki farið að fyrirmælum yfirvalda né sýnt samstarfsvilja vegna brottvísunarinnar. Því væri talin hætta á því að hnan reyndi að koma sér undan brottflutningi úr landi. 

Héraðsdómari féllst því á gæsluvarðhaldskröfu lögreglustjóra, sem Landsréttur hefur nú staðfest. Maðurinn mun því þurfa að sæta gæsluvarðhaldi, en þó ekki lengur en til föstudagsins 15. september klukkan 16.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×