Erlent

„Eins og fólk hafi verið að sleppa úr fangelsi“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Gæslumaður í miðbæ Osló segir næturlíf þar farið úr böndunum.
Gæslumaður í miðbæ Osló segir næturlíf þar farið úr böndunum. Getty

Næturlífið í Osló virðist hafa tekið við sér eftir samkomutakmarkanir þar í landi. Gæslumenn í miðborginni segja mikla óreiðu hafa ríkt þar síðustu daga.

Skemmtistaðir opnuðu á ný í maí eftir langa lokun vegna samkomutakmarkana. Robert Smith, gæslumaður í miðborginni, segir þetta vera erfiðan tíma. Fólk þráir að dansa eftir að hafa verið lokað inni svona lengi. „Það er eins og fólk hafi verið að sleppa úr fangelsi,“ sagði hann í samtali við norska fjölmiðilinn VG. 

Eftir að skemmtistaðirnir lokuðu á miðnætti hefur fólk verið að safnast saman úti. Síðasta föstudagskvöld var grasblettur við St. Hanshaugen fullur af fólki, sem síðan skildi svæðið eftir fullt af bjórdósum. Þar hafði fólk jafnframt tekið upp á því að taka með sér hátalara og spila tónlist í botni.

Lögreglumaðurinn Lars Kostveit telur að lögreglan muni líklega þurfa að beita frekari inngripum fljótlega. Fáar af þeim kvörtunum sem borist hafa lögreglu, hafa endað með sekt. Síðasta laugardag tók lögreglan á móti alls sjötíu kvörtunum.

Borgarfulltrúinn Raymond Johansen hefur áður sagt að nú sé kominn tími til þess að skrúfa niður karnival-stemminguna svo fólk geti sofið.

Joakim Ranes, átján ára skemmtanaglaður vegfarandi í miðborginni, segist hafa séð alls sex lögreglubíla á einu kvöldi, en að lögreglan hafi að öðru leyti ekki skipt sér mikið af. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×