Viðskipti innlent

Mikil framleiðslugeta ástæða lítillar fjárfestingar

Hafsteinn Hauksson skrifar
„Það er mikið rætt um að engin fjárfesting sé að eiga sér stað," segir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, í nýjasta þætti Klinksins.

„Atvinnuvegafjárfesting á fyrstu þremur fjórðungum ársins er að vaxa um 13 prósent frá fyrra ári. Ef við tökum í burt stóriðju, skip og flugvélar og horfum á kjarnaatvinnuvegafjárfestingu, þá er hún að vaxa um rúmleg 9 prósent á tímabilinu. Það er engin leið að segja að hér sé enginn bati eða að hann sé eingöngu drifinn af einkaneyslu - það stenst ekki."

Þrátt fyrir þetta hafa bankastjórar stóru bankanna kvartað undan því að ekkert gangi að koma peningum í útlán, þrátt fyrir að raunvextir á lánum séu lágir á Íslandi.

„Ein mikilvæg ástæða fyrir því að fjárfestingarviðbrögð fyrirtækja við aukinni einkaneyslu verða líklegast ekki sterk hér er sú að fyrir fjármálakreppuna var gríðarleg fjárfesting. Það er núna til staðar gríðarleg framleiðslugeta. Fyrirtækin eiga tiltölulega auðvelt með að mæta þessari eftirspurn án þess að fara út í viðbótarfjárfestingu," segir Þórarinn.

Hann bætir við óvissu um efnahagsreikninga bæði fyrirtækja og fjármálafyrirtækja, skuldsetningu fyrirtækja og óvissu í efnahagslífinu, en allt sé þetta til þess fallið að draga úr vilja fyrirtækja til að fjárfesta.

„Við erum samt að sjá hluti gerast, það er smám saman að rofa til í þessum málum."

Hægt er að horfa á nýjasta þátt Klinksins í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×