Innlent

Leyfis­veitingin ekki brot á EES-samningnum

Atli Ísleifsson skrifar
Védís Eva Guðmundsdóttir lögfræðingur Náttúruverndarsamtaka Íslands kvartaði til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, í maí síðastliðnum.
Védís Eva Guðmundsdóttir lögfræðingur Náttúruverndarsamtaka Íslands kvartaði til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, í maí síðastliðnum. Vísir/Dúi/Vilhelm

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ákveðið að ljúka skoðun sinni á kvörtun sem sneri að meintu broti Íslands á EES-reglum við veitingu leyfis til hvalveiða. Eftir yfirferð hefur ESA komist að þeirri niðurstöðu að leyfisveitingin feli ekki í sér brot á EES-samningnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni. Þar segir að í maí 2023 hafi ESA borist kvörtun vegna hvalveiða á Íslandi. Kvörtunin hafi byggt á því að leyfi sem stjórnvöld hafi veitt til hvalveiða vegna tímabilsins 2023 bryti í bága við tiltekin ákvæði EES-samningsins.

Fréttir bárust af því í maí síðastliðinn að Náttúruverndarsamtök Íslands hafi kvartað til ESA. „Þetta er í raun liður í mótmælum Náttúruverndarsamtakanna gegn aðgerðarleysi stjórnvalda, sem heimila þessar veiðar, þrátt fyrir niðurstöður um að dýravelferð sé ekki sinnt,“ var haft eftir Védísi Evu Guðmundsdóttur lögfræðingi um málið í maí.

Reglur EES má ekki utan um veiðar á hvölum

Í tilkynningunni frá ESA segir nú að í kvörtuninni hafi verið settar fram ábendingar varðandi leyfisveitinguna, einkum á þeim grunni að hún tæki ekki nægilegt tillit til velferðar dýra eða hollustuhátta matvæla.

„Eftir yfirferð upplýsinga varðandi kvörtunina hefur ESA komist að þeirri niðurstöðu að leyfisveitingin feli ekki í sér brot á EES-samningnum.

Hvað varðar hugsanleg brot vegna reglna um dýravelferð, þá þarf að líta til þess að slíkar reglur EES samningsins ná ekki utan um veiðar á sjávarspendýrum, svo sem hvölum. Málið fellur því utan gildissviðs EES samningsins og ESA mun ekki taka málið til skoðunar að þessu leyti.

Sá þáttur kvörtunarinnar sem varðaði ætluð brot á reglum um hollustuhætti matvæla sneri að opinberu eftirlit á sviði matvæla- og dýraheilbrigðis og hugsanlega annmarka á hollustuháttum við framleiðslu matvæla á starfsstöð. Það er á ábyrgð viðkomandi yfirvalda að tryggja að starfsstöðvar uppfylli skilyrði EES samningsins og viðkomandi reglna hverju sinni. ESA hefur eftirlit með opinberum aðilum og tryggir að þeir starfi í samræmi við EES reglur.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ESA að ekki séu skilyrði til þess að fara lengra með málið og ákvörðun hefur verið tekin um að loka því,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×