Innlent

Guðni hafi „skemmt“ hug­myndir um fram­boð

Atli Ísleifsson skrifar
Páll Pálsson fasteignasali stefndi á mögulegt framboð til forseta 2028.
Páll Pálsson fasteignasali stefndi á mögulegt framboð til forseta 2028. Vísir/Vilhelm

Páll Pálsson fasteignasali hyggst ekki bjóða sig fram til forseta lýðveldisins í kosningunum fyrsta dag júnímánaðar. Þetta staðfestir Páll í samtali við fréttastofu.

Páll ræddi það í lok síðasta árs að hann vonaðist til að Guðni myndi taka fjögur ár til viðbótar á forsetastól og að mögulega myndi Páll bjóða sig fram að þeim skipunartíma loknum. Hann sagðist þá ekki vera viss hvort hann myndi fara fram, færi svo að Guðni myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.

Páll segir nú í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að hann hefði haft hugmyndir um að fara í forsetaframboð árið 2028, þegar tími Guðna á forsetastól væri þá mögulega liðinn. Val Guðni að hætta núna hafi hins vegar „skemmt” þær hugmyndir, segir Páll, léttur í bragði. „Þannig að ég ætla ekki í framboð núna.“

Líkt og þekkt er tilkynnti Guðni í nýársávarpi sínu nokkuð óvænt að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.

Páll sagði í desember að hann hefði mikið álit á Guðna sem forseta. Hann hafi verið frábær. „Hann er að standa sig vel og ég sé engan í dag sem er betri en hann í þetta hlutverk. Þó maður geti verið uppfullur af egói þá er hann betri en bæði ég og þú í þetta embætti,“ sagði Páll í desember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×