Erlent

Á­greiningur innan stjórnarinnar brýst upp á yfir­borðið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Netanyahu og Gallant sitja saman í ríkisstjórn en virðast langt í frá góðir mátar.
Netanyahu og Gallant sitja saman í ríkisstjórn en virðast langt í frá góðir mátar. epa/Abir Sultan

Sundrung innan ríkisstjórnar Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, virðist nú vera að brjótast upp á yfirborðið en varnarmálaráðherrann Yoav Gallant hefur kallað eftir svörum um framtíð Gasa.

Netanyahu lét Gallant fjúka í fyrra en dró ákvörðun sína til baka í kjölfar fjöldamótmæla og pólitískrar krísu. Önnur slík virðist nú í uppsiglingu en Gallant kallaði í gær opinberlega eftir því að forsætisráðherrann upplýsti hvað hann hefði í hyggju varðandi Gasa að loknum átökum.

Þá ítrekaði varnarmálaráðherrann að hann myndi ekki styðja lausn þar sem Ísraelsmenn færu með stjórn svæðisins.

Benny Gantz, sem er ráðherra án málaflokks en situr í stríðsráðuneyti landsins, tók undir með Gallant og kom honum til varnar þegar köll fóru að heyrast eftir því að síðarnefndi yrði látinn taka poka sinn í annað sinn.

„Varnarmálaráðherra segir satt; það er hlutverk forystunnar að taka rétta ákvörðun fyrir landið, sama hvað það kostar,“ sagði Gantz.

Hvað á að taka við?

Gallant greindi frá því á blaðamannafundi í Tel Aviv í gær að hann hefði óskað eftir því að leit yrði hafin að einhverjum sem gæti stjórnað Gasa að átökum yfirstöðnum, öðrum en Hamas. Hann hefði hins vegar ekki fengið nein svör.

Þá gagnrýndi hann að engar áætlanir væru uppi um hvað ætti að taka við á Gasa.

Gallant endurómaði einnig áhyggjur sem eru sagðar uppi innan hersins um stjórnleysi á þeim svæðum þar sem Hamas-samtökin eiga að hafa verið upprætt en herinn hefur þurft að sækja aftur inn á. 

„Endalok hernaðaraðgerðanna er pólitísk ákvörðun. Við munum aðeins upplifa „daginn eftir Hamas“ með því að finna einhvern til að taka við af Hamas. Þetta varðar fyrst og fremst hagsmuni Ísrael,“ sagði Gallant.

Netanyahu svaraði Gallant opinberlega og ítrekaði þá afstöðu sína að Palestínumenn myndu ekki taka við stjórnartaumunum á Gasa á meðan Hamas-samtökin væru ennþá til. Útrýming Hamas væri lykilatriði.

Ismail Haniyeh, einn leiðtoga Hamas, sagði samtökin hins vegar myndu óhjákvæmilega eiga þátt í því að ákvarða framtíð Gasa, í samráði við aðra hópa Palestínumanna. Samtökin væru komin til að vera.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×