Erlent

Samið um kapp­ræður í júní og septem­ber

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samið hefur verið um tvennar kappræður en enn á eftir að ganga frá ýmsum útfærsluatriðum.
Samið hefur verið um tvennar kappræður en enn á eftir að ganga frá ýmsum útfærsluatriðum. AP

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Donald Trump, fyrrverandi forseti, hafa samþykkt að mætast í tveimur kappræðum fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

Fyrri kappræðurnar verða haldnar 27. júní næstkomandi og verða í umsjá CNN en seinni kappræðurnar fara fram 10. september og verður sjónvarpað af ABC News.

Nefnd um kappræður í forsetakosningum, sem hefur haldið utan um kappræðurnar í nærri 40 ár, mun ekki koma að málum að þessu sinni en Biden og Trump hafa báðir lýst óánægju sinni með nefndina.

Nefndin hafði ákveðið kappræður 16. september, 1. október og 9. október.

Þá vekur athygli hversu snemma fyrri kappræðurnar fara fram en hvorugur frambjóðandinn mun vera formlega útnefndur af flokk sínum þegar þeir mætast í júní.

Samkvæmt New York Times er enn verið að ræða og útfæra ýmis atriði. Kappræður CNN eru sagðar munu fara fram án áhorfenda en um er að ræða kröfu úr herbúðum Biden, þar sem menn vilja freista þess að koma í veg fyrir að viðbrögð áhorfenda trufli skoðanaskiptin.

Trump, sem nærist á köllum stuðningsmanna sinna, hefur sakað Biden um að hræðast að mæta honum frammi fyrir hóp áhorfenda.

Teymi Biden er einnig sagt hafa sett fram þá kröfu að aðeins yrði um að ræða hann og Trump og að Robert F. Kennedy Jr., sem er í framboði sem óháður, verði ekki boðið. Þá ku teymið einnig hafa farið fram á að slökkt yrði á míkrafónum þegar úthlutaður tími til að tala rynni út.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×