Erlent

Tugir hand­teknir á mót­mælum há­skóla­nema gegn að­gerðum Ísraels

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tjaldbúðir við Columbia University.
Tjaldbúðir við Columbia University. AP/Stefan Jeremiah

Tugir háskólanema voru handteknir á mótmælum gegn stríðsrekstri Ísraelsmanna á Gasa við Yale University í Connecticut og New York University á Manhattan í gær. Allir tímar við Columbia University fara nú fram um fjarfundabúnað vegna mótmæla.

Mótmæli hafa staðið yfir við háskólana um nokkurt skeið og þá hafa tjaldbúðir risið síðustu daga.

Að minnsta kosti 47 voru handteknir við Yale í gær samkvæmt yfirlýsingu stjórnenda háskólans en þeir höfðu ítrekað biðlað til nemenda, sem töldu nokkur hundruð, að yfirgefa háskólasvæðið. Þeir sem voru handteknir munu sæta agaviðurlögum.

Í New York lét lögregla til skarar skríða þegar kvöldaði en þar höfðu hundruð mótmælenda hafnað fyrirskipun stjórnenda New York University um að yfirgefa Gould-torg, skammt frá skólanum. 

Myndskeið sýna lögreglu taka niður tjöld og lenda í samstuði við mótmælendur.

Mótmælin hafa meðal annars snúið að því að skólarnir hætti að fjárfesta í fyrirtækjum í vopnaframleiðslu og fyrirtækjum með tengsl við Ísrael. Ríflega hundrað nemendur voru handteknir við Columbia University á fimmtudag og í gær var tilkynnt að allir tímar færu fram um fjarfundabúnað.

Fjöldi kennara við skólann hefur gengið út og lagt niður kennslu vegna ákvörðunar skólastjórnenda að biðja um aðstoð lögreglu við að taka niður tjaldbúðir við skólann.

Mótmælin hafa breitt úr sér og fjöldafundir verið haldnir við marga háskóla í Bandaríkjunum. Þá hafa tjaldbúðir risið við fleiri skóla, til að mynda MIT og Emerson College.

Guardian greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×