Enski boltinn

Lét vin­skap við dómara hafa á­hrif á notkun VAR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Dean hætti að dæma í deildinni eftir 2021-22 og gerðist myndbandadómari.
Mike Dean hætti að dæma í deildinni eftir 2021-22 og gerðist myndbandadómari. Getty/Richard Heathcote

Mike Dean er hættur að dæma en 28 ára ferli hans lauk eftir síðasta tímabil. Hann hefur nú viðurkennt að vinskapur hans við annan dómara kom í veg fyrir afskipti myndbandsdómara í leik í ensku úrvalsdeildinni.

Dean var myndbandsdómari í 2-2 jafntefli Chelsea og Tottenham í ágúst 2022. Dómari leiksins var góðvinur hans, Anthony Taylor.

Rétt áður en Harry Kane jafnaði leikinn og tryggði Tottenham stigið þá fannst Chelsea að liðið ætti að fá vítaspyrnu. Cristian Romero togaði þá í hár Marc Cucurella.

Aumkunarvert

Dean hefur viðurkennt að það var virkilega slæm ákvörðun hjá honum að láta Taylor ekki skoða atvikið á skjá.

„Ég missti af þessu fáránlega hártogi í leik Chelsea og Tottenham sem var aumkunarvert,“ sagði Mike Dean í viðtali í hlaðvarpsþætti Simon Jordan sem heitir „Up Front“. Breska ríkisútvarpið segir frá.

„Þetta er eitt af þessum skiptum sem ég vildi að ég gæti endurtekið. Ég hefði þá sent Anthony [Taylor] í skjáinn,“ sagði Dean en hann taldi sig vera að passa upp á dómarann með því að skipta sér ekki af þessu.

Það hafði gengið mikið á í leiknum og báðir knattspyrnustjórarnir voru komnir með gult spjald.

Hann er líka vinur minn

„Ég sagði við Anthony eftir leikinn: Ég vildi ekki senda þig í skjáinn vegna þess sem hafði gengið á áður í leiknum,“ sagði Dean.

„Ég vildi ekki senda hann í skjáinn af því að hann er líka vinur minn og ég vildi ekki koma honum í meiri vandræði í leiknum,“ sagði Dean.

Dean varð myndbandsdómari í fyrravetur eftir að hafa hætt að dæma eftir 2021-22 tímabilið. Hann dæmdi á sínum tíma yfir fimm hundruð leiki í ensku úrvalsdeildinni. Hann entist hins vegar ekki lengi í myndbandsdómgæslunni því hann hætti aðeins tveimur mánuðum eftir þennan umdeilda leik á Stamford Bridge.

Voru stór mistök

„Þetta voru stór mistök. Ef þeir hefðu ekki jafnað metin þá hefði þetta ekki orðið að eins stóru máli. Ég vissi það strax þá að ég fengi ekki verkefni vikuna eftir. Ég bað líka um að fá frí því þetta var bara ekki fyrir mig,“ sagði Dean.

„Ég var vanur að setjast inn í bíl á föstudögum og kveið fyrir laugardeginum. Ég hugsaði: Vonandi gerist ekkert. Ég sat skíthræddur í bílnum,“ viðurkenndi Dean.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×