Umfjöllun: Ísland - Holland 27-23 | Sigur í síðasta prófinu fyrir HM

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. vísir/vilhelm
Ísland hafði betur gegn Hollandi, 27-23, í síðasta æfingaleik liðsins áður en HM hefst í Þýskalandi og Danmörku í næstu viku.

Leikur íslenska liðsins var í raun ekki sérstakur framan af fyrri hálfleik. Hollendingar áttu auðvelt með að skora og markvarslan var engin.

Sóknarleikurinn var hægur og fyrirsjáanlegur en Hollendingar héldu í við íslenska liðið í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn braggaðist þó er leið á og Ísland leiddi í hálfleik, 14-12.

Björgvin Páll Gústavsson byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti og varði nokkra bolta sem skilaði því að Ísland náði að byggja upp gott forskot.

Ísland náði mest fimm marka forskoti í síðari hálfleik en Hollendingarnir voru sprækir og gáfust aldrei upp. Ljóst að Erlingur Richardsson er að gera flotta hluti með hollenska liðið. Lokatölur 27-23.

Afhverju vann Ísland?

Með betra lið. Það er í raun sú skýring sem er einföldust. Meiri breidd og fleiri leikmenn til þess að koma að sóknarleiknum. Guðmundur hreyfði vel við liðinu og alls komust ellefu leikmenn á blað í dag. Það er í raun erfitt að setja fingur á eitthvað eitt sem Ísland gerði til þess að vinna leikinn.

Hvað gekk illa?

Markvarslan var virkilega slök í fyrri hálfleik en skánaði til muna í síðari hálfleik. Eitthvað var um klaufalega tapaða bolta er menn köstuðu boltanum full auðveldlega frá sér eða misheppnaðar sendingar.

Varnarleikurinn var í raun og veru smá höfuðverkur allan leikinn. Hollendingarnir voru sterkir maður gegn manni og það er kannski skrýtið að segja þetta eftir að hafa fengið 23 mörk á sig en það var oft á tíðum full auðvelt fyrir hollenska liðið að spila sig í færi.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnór Þór Gunnarsson stóð sína plikt eins og svo oft áður en hann endaði markahæstur. Hann skoraði úr öllum fimm vítum sínum. Ómar Ingi Magnússson skoraði þrjú mörk auk þess að vera duglegur að leggja upp og Bjarki Már Elísson kom með flotta innkomu í vinstra hornið í síðari hálfleik.

Hvað gerist næst?

HM. Ekkert annað en heimsmeistaramótið í handbolta sem hefst næsta föstudag. Þar er fyrsti andstæðingurinn Króatía og þar þurfum við á topp, topp leik ætlum við að ná í stig eða tvö. Vísir mun að sjálfsögðu fylgja ykkur í gegnum HM og fylgjast vel með strákunum okkar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira