Viðskipti innlent

Há laun og dýr bjór séu vanda­mál ÁTVR

Bjarki Sigurðsson skrifar
Arnar Sigurðsson er stofnandi og eigandi Santé.
Arnar Sigurðsson er stofnandi og eigandi Santé. Vísir/Ívar Fannar

Eigandi netsölu á áfengi gagnrýnir að forstjóri ÁTVR kenni netsölu um samdrátt í hagnaði verslunarinnar. Löngu tímabært sé að leggja ÁTVR niður, sem hafi einfaldlega lent undir á samkeppnismarkaði.

Í ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2023 kemur fram að arðgreiðsla verslunarinnar í ríkissjóð nemi fimm hundruð milljónum og lækki um 400 milljónir milli ára. Salan á áfengi minnkaði um tvö prósent milli ára og í formála Ívars Arndals, forstjóra ÁTVR, segir hann það rökrétt að álykta að sökudólgurinn séu netsölur áfengis. Fjögur ár séu síðan ÁTVR kærði netsölu til lögreglu en ekkert hafi heyrst frá henni á þessum tíma.

Spyr hvers vegna þurfi ríkisstofnun

Arnar Sigurðsson, eigandi Santé sem selur áfengi á netinu, telur að netverslanirnar séu ekki vandamálið, þvert á móti sé það ÁTVR.

„Að sjálfsögðu ætti að leggja þetta niður eins og grænmetisverslun landbúnaðarins og mjólkurbúðir á sínum tíma. Það er engin þörf á þessu, þetta stenst engin rök. Einstaklingar eru að selja skotvopn, sprengiefni, geislavirk efni og svo framvegis. Hvers vegna þarf ríkisstofnun til að selja þetta? Ég hef ekki séð nein rök fyrir því. Það mætti að mínu mati skala þetta niður snarlega og hætta þessari starfsemi,“ segir Arnar. 

Klippa: Vill leggja ÁTVR niður

Há laun og dýr bjór

Hann telur ÁTVR einfaldlega verða undir á samkeppnismarkaði.

„ÁTVR er bundið á því að versla við heildsala, þeir flytja ekki inn neinar vörur. Við erum að flytja inn bjór sem kemur beint frá Belgíu og er 39 prósent ódýrari en hjá ríkinu. Þetta er kannski ein af ástæðunum fyrir því hvers vegna þeir eru að verða undir í samkeppninni,“ segir Arnar. 

Aukinn launakostnaður hjá ÁTVR hljóti líka að hafa áhrif.

„Þeir til dæmis auka stjórnunarkostnað þannig reksturinn á skrifstofunni hjá Ívari og vinum hans kostar íslenskan almenning um 550 milljónir á þessu ári. Stjórnunarkostnaðurinn eykst um 120 milljónir, ekki bara á þessu ári heldur líka á síðasta ári. Þannig að á hverju ári erum við að borga Ívari og félögum hans 240 milljónum meira heldur en var fyrir þremur árum síðan,“ segir Arnar. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×