Enski boltinn

Dánarorsök leikmanns enn óþekkt

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mínútu þögn var fyrir leik Sheffield United og Newcastle á Bramall Lane þann 24. september vegna andláts Cusack. Leik kvennaliðsins var frestað eftir áfallið.
Mínútu þögn var fyrir leik Sheffield United og Newcastle á Bramall Lane þann 24. september vegna andláts Cusack. Leik kvennaliðsins var frestað eftir áfallið. Getty

Dánarorsök Maddy Cusack, fyrrum leikmanns Sheffield United á Englandi, liggur ekki fyrir eftir rannsókn. Sú rannsókn hefur verið framlengd um sex vikur.

Cusack var 27 ára þegar hún lést að heimili sínu í Horsley í Derbyskíri á Englandi þann 20. september. Hún var leikmaður Sheffield United og enginn í því liði hafði spilað með því eins lengi þegar hún lést.

Lögreglan í Derbyskíri segir frá því að ekki sé talið að andlát hennar hafi borið að með saknæmum hætti.

Réttarrannsókn á dauða Cusack er ekki lokið en málið var tekið fyrir í gær af dánardómsstjóra.

„Við bíðum eftir lögregluskrá og læknisfræðilegri dánarorsök,“ hefur breska ríkisútvarpið, BBC, eftir Louise Pinder, aðstoðarlíkskoðara. „Vegna þessa fresta ég rannsókninni í sex vikur til frekari skoðunar.“

Cusack varð í fyrra fyrsti leikmaður í sögu kvennaliðs Sheffield United til að spila 100 leiki fyrir félagið. Hún kom til Sheffield frá Leicester City árið 2019. Hún starfaði samhliða því hjá markaðsdeild félagsins.

Bæði kvenna- og karlalið liðsins heiðruðu minningu hennar á leikjum þeirra eftir að hún lést.

Andlát hennar var harmþrungið fyrir alla á Bramall Lane, er haft eftir framkvæmdastjóra félagsins, Stephen Bettis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×