Innlent

Sekta ekki strax fyrir notkun nagladekkja

Máni Snær Þorláksson skrifar
Síðasti dagurinn til að aka um á nagladekkjum fyrir sumarið er í dag samkvæmt reglugerð. Lögreglan hyggst þó ekki byrja að sekta fyrir notkun þeirra fyrr en í næsta mánuði.
Síðasti dagurinn til að aka um á nagladekkjum fyrir sumarið er í dag samkvæmt reglugerð. Lögreglan hyggst þó ekki byrja að sekta fyrir notkun þeirra fyrr en í næsta mánuði. Vísir/Vilhelm

Í dag er síðasti dagurinn sem aka má um á nagladekkjum samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Lögreglan mun þó ekki byrja að sekta þau sem aka um á nagladekkjum á morgun, það verður ekki gert fyrr en í næsta mánuði.

„Tími nagladekkja er liðinn.... þetta vorið,“ segir í upphafi færslu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birtir á Facebook-síðu sinni í dag.

Þrátt fyrir að miðað sé við að 15. apríl sé síðasti dagurinn sem bifreiðar mega aka um á nagladekkjum þá er lögreglan ekki að stressa sig um of á reglugerðinni. Lögreglan segir þó að það sé kjörið að koma sumardekkjunum undir bílinn „á næstu vikum.“

Þá bendir lögreglan á að stundum séu aðstæður þannig að fólk þurfi og vilji vera með nagladekkin lengur. Venjulega krefjist akstur á höfuðborgarsvæðinu þess þó ekki. 

„Lögreglan mun skoða nagladekkin hjá ökumönnum í næsta mánuði og vonandi verða þá allir komnir á sumardekkin.“

Vorboðinn ljúfi

Fólk velti því fyrir sér í athugasemdakerfinu við færsluna hvort lögreglan ætlaði sér að byrja að sekta fyrir notkun nagladekkja á morgun. „Nei.... ekki á morgun....“ svaraði lögreglan þeirri spurningu. Í kjölfarið var færslan svo uppfærð og tekið fram að ekki yrði sektað strax.

„Við munum ekki byrja að sekta fyrir notkun nagladekkja fyrr en í næsta mánuði eins og við gerum ár hvert. Við munum tilkynna það hér þegar munum byrja að á því að beita sektum eins og við höfum ætíð gert!“

Miklar umræður mynduðust þá í athugasemdakerfinu þar sem fólk skiptist á skoðunum um hvers vegna lögreglan ætti eða ætti ekki að sekta strax á morgun. Í einni athugasemd var umræðan svo kjörnuð ágætlega: „Ahhhh þessi umræða. Vorboðin ljúfi þegar nagladekkjaumræðan fer af stað.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×