Viðskipti innlent

Vogun ver sig

Fréttablaðið hefur greint frá samþjöppun eignarhalds í HB Granda á undanförnum mánuðum. Tveir hluthafar eiga nú 73 prósent hlutafjár. Annar er Kaupþing sem á um þriðjungshlut. Er talið að Kaupþing horfi á að selja ýmsar eignir út úr félaginu, til dæmis fasteignir, lóðir eða kvóta, sem er varla það sem núverandi stjórnendur hafa í huga. Í gær kom sú tilkynning að stærsti hluthafinn, Vogun, sem er meðal annars í eigu Árna Vilhjálmssonar, stjórnarformanns HB Granda, og Kristjáns Loftssonar í Hvali, hefði keypt rúmlega fimm prósenta hlut Kjalars í Granda. Eftir kaupin fara Vogun og tengdir fjárfestar með um rúman helmingshlut í HB Granda. Launar aðstoðinaKaupin eru forvitnileg fyrir þær sakir að Kjalar er að langstærstum hluta í eigu Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns Samskipa. Dótturfélag Kjalars er Egla, annar stærsti hluthafinn í Kaupþingi. Ólafur hefur átt gott og farsælt samstarf við stjórnendur Kaupþings í gegnum árin. Hann hefur líka átt gott og farsælt samstarf við þá Árna og Kristján í gegnum fjárfestingar í Keri sem nú hefur sameinast Kjalari. Á sínum tíma sótti Fjárfestingafélagið Grettir hart að Ólafi í Keri en þeir Árni og Kristján stóðu fast að baki gamals viðskiptafélaga í þeim átökum og hlutu mikinn sóma af. Hver veit nema að Ólafur sé nú að launa Vogunarmönnum greiðann þegar sótt er fast að þeim.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×