Körfubolti

Elvar stiga­hæstur í grátlegu tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson var stigahæsti maður vallarins í kvöld.
Elvar Már Friðriksson var stigahæsti maður vallarins í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Elvar Már Friðriksson var stigahæsti maður vallarins er PAOK mátti þola grátlegt þriggja stiga tap í framlengdum leik gegn Panathinaikos í úrslitakeppni gríska körfuboltans í kvöld, 96-99.

Elvar og félagar höfnuðu í áttunda sæti deildarinnar og lentu því á móti deildarmeisturum Panathinaikos í átta liða úrslitum. Því var ljóst að verðugt verkefni biði PAOK.

Gestirnir í Panathinaikos höfðu yfirhöndina framan af leik og leiddu með sjö stigum að loknum fyrsta leikhluta. Elvar og félagar sneru taflinu hins vegar við í öðrum leikhluta og leiddu með fimm stigum þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 49-44.

Í þriðja leikhluta náði liðið mest átta stiga forskoti og mesti munurinn á liðunum var ellefu stig þegar PAOK komst í 79-68 þegar fjórði leikhluti var um það bil hálfnaður. Gestirnir náðu að klóra í bakkann á lokamínútum leiksins og jöfnuðu loks undir lok leiks. Staðan að loknum venjulegum leiktíma 89-89 og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni reyndust gestirnir sterkari og unnu að lokum þriggja stiga sigur, 96-99.

Elvar Már var sem áður segir stigahæsti maður vallarins með 25 stig, en hann tók einnig eitt frákast og gaf fimm stoðsendingar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×