Innlent

Skip­stjórinn gistir fanga­geymslur á­samt stýri­manni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fraktskipið í höfn í Vestmannaeyjum í dag.
Fraktskipið í höfn í Vestmannaeyjum í dag. Óskar P. Friðriksson

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum segir málsatvik úti fyrir Garðskagavita í nótt að skýrast. Skipstjóri og stýrimaður muni dvelja í fangelsi til morguns hið minnsta. Þeir voru um borð í fraktskipi sem sigldi á fiskibát með þeim afleiðingum að sjómaður lenti í lífsháska.

Það var á þriðja tímanum í nótt að strandveiðibátur sökk norðvestur af Garðskaga. Viðbragðsaðilar voru kallaðir út en það reyndist mikið happ að skipstjóri annars strandveiðibáts á svæðinum kom manninum til bjargar. Í ljós kom að þeir höfðu þekkst í yfir fjóra áratugi.

Arnar Magnússon strandveiðisjómaður sem kom skipverja bátsins til bjargar í nótt lýsti aðstæðum í viðtali við fréttastofu í dag. Þegar hann áttaði sig á því að það sem hann sá í sjónum var ekki gámur heldur bátur. Svo sting sem hann fékk í hjartað þegar hann sá að þetta var bátur vinar hans.

Arnar sagði fullkomlega ljóst að fraktskipið hefði siglt á fiskibátinn. Myndir af skemmdum á fiskibátnum og á fraktskipinu benda til þess.

Fraktskipið heitir Longdawn og var skiptstjóri þess handtekinn í dag ásamt tveimur stýrimönnum. Skipið var á leiðinni til Rotterdam en var siglt til Vestmannaeyja þar sem skýrslutökur hafa staðið yfir í kvöld.

Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir skýrslutökum að ljúka. Skipstjórinn og annar stýrimaðurinn verði í haldi til morguns hið minnsta. Þá skýrist hvort farið verði fram á gæsluvarðhald. Skipið verði áfram í höfn.

Karl Gauti segir málsatvik vera að skýrast án þess að geta farið út í þau í smáatriðum. Þá sé augljóst að lukkan hafi verið í liði með sjómanninum að hafa komist lífs af í sjónum í nótt.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem Arnar var með skýr skilaboð til annarra strandveiðisjómanna.


Tengdar fréttir

Vísbending um að flutninga­­skip hafi hvolft bátnum

Lögreglan rannsakar hvort erlent flutningaskip tengist því að að strandveiðibát hvolfdi norðvestur af Garðskaga í nótt. Manni var bjargað úr sjónum en litlu mátti muna að illa færi. Skemmdir á stefni flutningaskipsins benda til áreksturs.

Skipstjórinn og tveir stýrimenn handteknir vegna sjóslyssins

Skipstjóri skipsins Longdawn hefur verið handtekinn, grunaður um að hafa yfirgefið mann í sjávarháska við Garðskagavita í nótt. Allt bendir til þess að fraktskipið hafi rekist í strandveiðibát manns sem lenti í sjónum en var naumlega bjargað. Auk skipstjórans eru tveir stýrimenn í haldi lögreglunnar í Vestmannaeyjum. 

Fékk sting í hjartað þegar hann sá nafnið á bátnum

Arnar Magnússon strandveiðisjómaður sem kom skipverja bátsins sem hvolfdi í nótt til bjargar, segir liggja í augum uppi að flutningaskip hafi klesst á bátinn. Sjálfur var hann nýkominn í land úr veiðitúr þegar Margrét Björk Jónsdóttir hitti hann í Sandgerði. Hann segir yndislegt að félagi hans til fjörutíu ára hafi komist lífs af. „Þetta fer ekki alltaf svona vel.“

Manni bjargað úr sjónum í nótt eftir að bátur hans sökk

Manni var bjargað á þriðja tímanum í nótt þegar strandveiðibátur sökk norðvestur af Garðskaga. Viðbragðsaðilar voru kallaðir út vegna málsins en það var skipstjóri annars strandveiðibáts sem bjargaði manninum úr sjónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×