Skoðun

Góður for­seti

G. Pétur Matthíasson skrifar

Þótt ég hafi ekki alltaf verið sammála Katrínu Jakobsdóttur í stjórnmálum og alls ekki verið sáttur við allar hennar ákvarðanir á því sviði undanfarin ár þá styð ég hana heilshugar sem forsetaframbjóðanda. 

Katrín hefur allt það til að bera sem prýða má góðan forseta. Hún kemur vel fyrir hvort heldur er á alþjóðavettvangi eða hér heima. Utan hins flokkspólitíska veruleika hygg ég að Katrín nái að verða forseti allra Íslendinga, nái að vekja með okkur samkennd og stolt. Enda er það eitt stærsta hlutverk forseta Íslands að taka utan um þjóð sína á viðsjárverðum tímum og treysta þau bönd sem binda okkur saman. 

Forseti sem léttir okkur lífið með orðum sínum og gerðum. Slíkur forseti yrði Katrín. Forseti sem stappar í okkur stálinu, sem þekkir þjóð sína, sem kann skil á hverskyns menningu okkar, hvort heldur er í listum eða daglegu lífi, forseti sem hefur samúð og velvilja ekki síst í garð þeirra nýju Íslendinga sem eru að gera sér heimili á Íslandi okkur öllum til hagsbóta. 

Auk hins mannlega þá gjörþekkir Katrín auðvitað hinn pólítíska veruleika og mun þess vegna auðveldlega geta leitt stjórnarmyndun á hinn besta veg af þeirri auðmýkt sem forseti ber að hafa gagnvart því hlutverki og mun ekki taka sér nein þau völd sem forseti ekki hefur og á ekki að hafa. Ég treysti Katrínu fullkomlega til að segja skilið við sína pólitísku fortíð og meta stöðu stjórnmála af hlutleysi og bregðast við af háttvísi. 

Það eru margir frambærilegir frambjóðendur í komandi kosningum enda þeir afar margir sem bjóða fram sína góðu krafta. Það er því ekki áhlaupaverk að velja að þessu sinni en ég styð Katrínu heilshugar og hlakka til að kjósa hana þann 1. júní.

Höfundur er stuðningsmaður Katrínar Jakobsdóttur.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×