Erlent

Ný geim­flaug sprakk í loft upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Geimflaugin sprakk í loft upp nokkrum sekúndum eftir flugtak.
Geimflaugin sprakk í loft upp nokkrum sekúndum eftir flugtak.

Fyrsta geimskot japanska fyrirtækisins Space One sprakk í loft upp við geimskot í nótt. Forsvarsmenn fyrirtækisins vonuðust til þess að Space One yrði fyrsta einkafyrirtæki í Japan til að koma gervihnetti á braut um jörðu en það misheppnaðist.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar sprakk geimflaugin í loft upp fimm sekúndum eftir að kveikt var á hreyflum hennar og er ekki vitað með vissu hvað gerðist, enn sem komið er.

Sjálfvirkur búnaður eldflaugarinnar sprengdi hana í loft upp vegna villu sem kom upp. Kerfið taldi strax ómögulegt að eldflaugin myndi ná út í geim.

Engan sakaði og eldur sem kviknaði á jörðu niðri var fljótt slökktur.

Eldflaugin er af gerð sem kallast Kairos og átti hún að bera gervihnött frá yfirvöldum í Japan á braut um jörðu. Gervihnöttinn átti meðal annars að nota til að vakta eldflaugaskot frá Norður-Kóreu.

Masakazu Toyoda, forstjóri Space One, hefur ekki viljað kalla geimskotið misheppnað og segir eðlilegt að mistök eigi sér stað í ferli sem þessu. Þá hefur hann neitað að segja hvað sprengingin kostaði.

Einkafyrirtæki víða um heim vinna að þróun eldflauga sem borið geta gervihnetti á braut um jörðu. Bandaríska fyrirtækið SpaceX ber höfuð og herðar yfir aðra á því sviði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×