Innlent

Leit stendur yfir eftir að til­kynnt var um bíl í Þing­valla­vatni

Atli Ísleifsson skrifar
Leit stendur enn yfir. Myndin er úr safni.
Leit stendur enn yfir. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitir, lögreglumenn af Suðurlandi, slökkviliðsmenn frá Brunavörnu Árnessýslu og þyrla Landhelgisgæslunnar eru nú að störfum við Þingvallavatn eftir að tilkynnt var um að bíll hafi farið í vatnið, sem er ísilagt að hluta.

Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við fréttastofu. Hann segir að tilkynningin hafi borist upp úr klukkan 11 í morgun.

Hann segir að leit hafi enn sem komið er ekki skilað árangri. Þyrla Landshelgisgæslunnar sé að fljúga yfir svæðið og þá hafi björgunarsveitir víðs vegar á Suðurlandi verið kallaðar út til leitar.

Jón Þór segir að sérstaklega sé verið að skoða svæðið nærri Heiðarbæ við norðvesturenda vatnsins.

Ekki hefur náðst í fulltrúa lögreglunnar á Suðurlandi vegna málsins.

Uppfært -12:40

Jón Þór segir að lítið sé að frétta af leitinni. Hann segist í raun ekki hafa heyrt um að nein ummerki um bíl sem hafi farið ofan í hafi fundist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×