Innlent

Ferða­manni bjargað af flæði­skeri

Samúel Karl Ólason skrifar
Ferðamaðurinn sóttur á flæðisker.
Ferðamaðurinn sóttur á flæðisker. Landsbjörg

Björgunarsveitarmenn frá Lífsbjörg í Snæfellsbæ björguðu undir kvöld ferðamanni af flæðiskeri á sunnaverðu Snæfellsnesi. Maðurinn var fastur á skeri undan ströndum Ytri Tungu og var honum bjargað á síðustu stundu.

Útkallið barst rétt fyrir klukkan sex en þá hafði ferðamaðurinn verið í göngu í fjörunni í selaskoðun. Þegar flæddi að honum lokaðist leið hans í land, samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörgu.

Þrír björgunarsveitarmenn í flotgöllum komu manninum til bjargar. Þeir bundu sig saman og voru með öryggislínu í land þegar þeir óðu og syntu að manninum. Í tilkynningunni segir að nokkuð þung undiralda hafi verið á staðnum og talsvert útsog.

Þegar línu hafði verið komið í manninn var hann dreginn í land af björgunarsveitarmönnum og lögreglu og færður í hendur sjúkraflutningamanna. Hann er sagður hafa verið kaldur og blautur en að öðru leyti vel haldinn.

Rétt eftir að honum var komið í land flæddi yfir skerið sem hann stóð á. Í tilkynningunni segir að ekki hafi mátt tæpara standa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×