Erlent

Hægt að koma í veg fyrir nærri öll dauðsföll með bólusetningu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nærri allir þeir sem leggjast inn á sjúkrahús með Covid-19 eru óbólusettir.
Nærri allir þeir sem leggjast inn á sjúkrahús með Covid-19 eru óbólusettir. AP/Jae C. Hong

Hægt er að komast hjá nærri öllum dauðsföllum af völdum Covid-19 með bólusetningu. Þetta segir framkvæmdastjóri Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna en aðeins 0,1 prósent þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús í Bandaríkjunum af völdum sjúkdómsins eru bólusettir.

Greining Associated Press á opinberum gögnum fyrir maí hefur leitt í ljós að af þeim 853 þúsund sem lagðir voru inn á sjúkrahús voru aðeins 1.200 fullbólusettir.

Þá voru 150 af 18 þúsund einstaklingum sem létust af völdum sjúkdómsins í maí fullbólusettir. Hlutfallið er 0,8 prósent.

Sóttvarnastofnunin hefur ekki gefið tölfræðina út, sökum ákveðinna breyta sem gera það að verkum að erfitt að fullyrða um fullkomlega réttar tölur. Þar má til dæmis nefna að aðeins 45 ríki safna upplýsingum um sýkingar meðal bólusettra.

Þá eru þau misdugleg við að elta slík tilvik uppi.

Andy Slavitt, fyrrverandi ráðgjafi Biden-stjórnarinnar í málefnum er varða kórónuveiruna, sagði fyrr í mánuðinum að 98 til 99 prósent þeirra sem létust af völdum Covid-19 væru óbólusettir.

Foretafrúin Jill Biden og Anthony Fauci ræða við einstakling sem mætir í bíla-bólusetningu í Flórída.AP/T.J. Kirkpatrick

Sjá eftir því að hafa ekki látið bólusetja sig

Rochelle Walensky, forstjóri CDC, segir dauðsföll af völdum sjúkdómsins átakanleg, í ljósi þess hversu vel bóluefnin séu að virka. Hægt sé að koma í veg fyrir nánast öll dauðsföll af völdum Covid-19 með bólusetningum.

Um það bil 63 prósent þeirra sem býðst bólusetning hafa fengið að minnsta kosti einn skammt og 53 prósent eru fullbólusett. Bólusetning stendur öllum til boða sem eru 12 ára og eldri.

Sérfræðingar segja allar líkur á því að fleiri muni deyja af völdum Covid-19, ekki síst þegar hópsýkingar fara að brjótast út meðal óbólusettra í haust. Spár gera ráð fyrir að dauðsföllum fjölgi aftur þegar líður á veturinn.

Í Arkansas, þar sem aðeins um 33 prósent íbúa eru bólusettir, fer tilfellum, innlögnum og dauðsföllum fjölgandi. „Það er sorglegt að sjá fólk leggjast inn eða deyja þegar hægt er að koma í veg fyrir það,“ tísti ríkisstjórinn Asa Hutchinson.

Alex Garza, sjúkrahússtjórnandi í St. Louis, segir meira en 90 prósent þeirra sem lagðir eru inn óbólusett. „Flestir þeirra sjá eftir því að hafa ekki látið bólusetja sig. Það er nokkuð sem við heyrum oft frá sjúklingum með Covid-19.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×