Íslenski boltinn

Úlfur: Stoltur af Valsliðinu í dag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Úlfur Blandon þjálfari Vals
Úlfur Blandon þjálfari Vals Vísir/Eyþór
„Ég er mjög sáttur að koma hingað á Grindavíkurvöll og spila mjög flottan fótboltaleik. Mér fannst við gera allt rétt í dag, höldum hreinu og skorum þrjú góð mörk,“ sagði Úlfur Blandon þjálfari Valskvenna eftir öruggan sigur gegn Grindavík í Pepsi-deild kvenna í kvöld.

„Við vorum þolinmóðar því við vissum að þær myndu liggja aftarlega á móti okkur. Við þurftum að sýna klókindi til að opna vörnina þeirra og skorum þrjú fín mörk.“

Valsliðið var töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Viviane Domingues í marki Grindavíkur hélt þeim á floti með góðum vörslum oft á tíðum.

„Heilt yfir er leikurinn í 90 mínútur góður. Við vissum að við þyrftum að gera eitthvað óvænt og vorum að reyna það allan leikinn. Ég er stoltur af Valsliðinu í dag.“

Anisa Guajardo átti góða innkomu af bekknum í kvöld. Hún skoraði annað mark liðsins með góðum skalla og fiskaði síðan vítið sem Vesna Elísa Smiljkovic skoraði þriðja markið úr.

„Ég er feykilega ánægður með hennar innkomu. Hún sýndi það að hún er stórhættuleg þegar hún tekur sig til og sýndi í dag að hún getur verið góð í fótbolta.“

Þór/KA á Íslandsmeistaratitilinn vísan nú þegar þrjár umferðir eru eftir af Pepsi-deildinni en Valskonur eru í harðri baráttu við Breiðablik, Stjörnuna og ÍBV um verðlaunasætin í deildinni.

„Við erum í raun bara að einbeita okkur að einum leik í einu. Við ætlum að setja svolítinn kraft í þessa leiki sem við eigum eftir og taka þrjú stig í þeim. Síðan sjáum við hvert það skilar okkur,“ sagði Úlfur Blandon þjálfari Vals að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×