Viðskipti innlent

Bankaráðið vill fá að ákveða laun Steinþórs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bankaráð vill sjálft fá að ákveða laun Steinþórs Pálssonar bankastjóra Landsbankans.
Bankaráð vill sjálft fá að ákveða laun Steinþórs Pálssonar bankastjóra Landsbankans.
Bankaráð Landsbanka Íslands vill að bankaráðið sjálft, en ekki kjararáð, úrskurði um laun bankastjórans. Þetta kemur fram í umsögn bankaráðsins við frumvarpi fjármálaráðherra um kjararáð, sem Steingrímur J. Sigfússon lagði fram 2. desember síðastliðinn, tæpum mánuði áður en hann sagði skilið við embættið.

Þessi skoðun bankaráðsins er í samræmi við skoðun sem Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans lýsti sjálfur í þættinum Klinkinu sem birtur er á viðskiptasíðu Vísis. Þar sagðist hann telja að laun sín væru ekki samkeppnishæf en þau eru aðeins um þriðjungur af launum bankastjóra hinna bankanna. Ástæðan er sú að Landsbankinn er eini bankinn sem er í meirihlutaeigu ríkisins og því gilda reglur um kjararáð um Landsbankann en ekki hina bankana. Steinþór sagðist vonast til þess að lögum verði breytt svo kjararáð geti ekki bundið hendur stjórnar bankans.

Samkvæmt lagafrumvarpi um kjararáð sem liggur fyrir þinginu er ekki gert ráð fyrir breytingum á þann hátt sem Steinþór, og reyndar bankaráðið líka, kallar eftir. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að laun ákveðinna manna sem heyra undir kjararáð geti orðið hærri en laun forsætisráðherra. Lög sem sett voru eftir bankahrunið segja hins vegar að enginn sá sem heyrir undir kjararáðið skuli vera hærri en forsætisráðherrann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×