Innlent

Fjárlögum vísað til þriðju umræðu

MYND/AP

Atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu um fjárlög ársins 2007 lauk nú fyrir stundu og var samþykkt að vísa þeim til þriðju umræðu. Þingmenn stjórnarmeirihlutans greiddu því atkvæði en stjórnarandstaðan sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fjörugar umræður spruttu í tengslum við atkvæðagreiðsluna um einstakar efnisgreinar frumvarpsins og sagði Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna, að ljóst væri af umræðunum að kosningabaráttan fyrir komandi þingkosningar væri hafin.

Í athugasemdum um atkvæðagreiðsluna gagnrýndu fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna ríkisstjórnina fyrir frumvarpið. Sagði Einar Már Sigurðarson, þingmaður Samfylkingarinnar, að fjárlögin hefðu á sér kosningablæ og að það biði nýrrar ríkisstjórnar sem tæki við eftir kosningar í vor að vinna úr þeim. Fjárlögin væru tilraun til að tryggja núverandi meirihluta áframhaldandi setu í ríkisstjórn og þjónaði fjölmiðlaþörf ráðherra. Frumvarpið segði allt sem segja þyrfti um nauðsyn þess að skipta um ríkisstjórn í vor.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, gagnrýndi meirihlutann fyrir að hafna öllum tillögum stjórnarandstöðunnar til breytinga á fjárlögum. Stjórnarandstaðan vildi gera átak til að bæta kjör aldraðra og öryrkja en fengi ekki stuðning stjórnarmeirihlutans til þess.

Birkir Jón Jónsson, formaður fjárlaganefndar, benti á að samkvæmt frumvarpinu skilaði ríkissjóður níu milljarða króna afgangi þrátt fyrir að stórauknum fjármunum væri varið í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmál. Ríkisstjórnin ætlaði áfram að auka kaupmátt landsmanna á næsta ári með hækkun frítekjumarks og lækkun á virðisaukaskatti á matvæli. Áfram yrði því staðinn vörður um velferðarkerfið.

Árni M. Mathiesen tók í sama streng og sagði frumvarpið sýna að ráðist yrði í átak til að bæta hag lífeyrisþega á næsta ári ásamt því að matarskattar yrðu lækkaðir hér á landi. Sagði hann frumvarpið gott. „Þeir sem ekki sjá þetta, þeir eru hreinlega blindir," sagði ráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×