Innlent

Réðist á konu á heimili hennar

Maður á fimmtugsaldri var sakfelldur fyrir líkamsárás á konu á svipuðum aldri á heimili hennar sl. sumar og dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómurinn er skilorðsbundinn í tvö ár. Í ákæru var maðurinn sagður hafa slegið konuna hnefahöggi í andlitið, rifið í hár hennar og misþyrmt með öðrum hætti. Þá kom hann í veg fyrir að hún gæti hringt á lögreglu með því að taka af henni síma, en hún flúði til nágranna. Fram kom að fólkið átti í sambandi og hafði verið að skemmta sér kvöldið áður með vini mannsins. Um kvöldið ætlaði konan heim með vininum en maðurinn kom í veg fyrir það og segir í kæru konunnar að í framhaldinu hafi hann ráðist á hana. Manninum var gert að greiða allan sakarkostnað, og til að greiða konunni 70 þúsund krónur í miskabætur. Í skýrslu lögreglu kom fram að bæði maðurinn og konan hafi verið ölvuð þegar lögreglu bar að klukkan að ganga tvö á aðfaranótt mánudagsins 23. júní í fyrra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×