Skoðun

For­maður hús­fé­lagsins

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Það að kjósa sér forseta er ekki eins og að kjósa í Júróvisjon, þar sem við látum stundum stjórnast af nýjungagirni og vonum svo það besta um að sigurvegarinn spjari sig. Það þarf að vega og meta það hvernig fólk muni valda þessu sérstaka starfi, til dæmis með því að ímynda sér það sem talsmann og fulltrúa landsins á alþjóðavettvangi eða á erfiðum stundum í lífi þjóðarinnar þegar þarf að finna rétt orð og sýna rétt viðmót – eða í því hlutverki að takast á við stjórnarkreppur þar sem þarf að leiða saman ólík öfl til að stjórna landinu. Við höfum fylgst með Katrínu Jakobsdóttur í öllum þessum hlutverkum og öll hefur hún leyst framúrskarandi vel af hendi.

Stjórnarskráin mætti vera skýrari þegar kemur að valdsviði og hlutverki forseta Íslands. Í covid-faraldrinum sýndi Katrín að hún skilur valdmörk og virðir þau. Það er gríðarlega mikilsverður eiginleiki í þessu embætti. Hún hefur um leið til að bera myndugleik og reynslu sem stjórnmálamenn bera virðingu fyrir.

Íslenskt samfélag er stundum eins og húsfélag í fjölbýlishúsi þar sem þarf til dæmis að taka ákvarðanir um litinn á þakinu. Hjónin í íbúð 3.B eru alveg hörð á rauða litnum en karlinn á 4.C má ekki heyra á annað minnst en bláan lit. Þá er mikilvægt að í hópnum sé manneskja sem getur þokað málum áfram, sætt sjónarmið og leitt fram niðurstöðu sem almestu þrasararnir geta lifað með. Þegar við horfum yfir þann glæsilega hóp sem nú er í framboði til embættis forseta þá er vel hægt að sjá fyrir sér vænlega kosti, fólk sem bæði hefur til að bera myndugleik til að taka af skarið en kann líka að hlusta og skapa gott andrúmsloft kringum sig. En sjálfur ætla ég að kjósa Katrínu Jakobsdóttur sem formann húsfélagsins í ár.

Höfundur er rithöfundur



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×