Erlent

Sagðist sak­laus af því að hafa drepið með eitruðum sveppum

Kjartan Kjartansson skrifar
Teikning af Erin Patterson í dómsal í nóvember. Hún er ákærð fyrir þrjú morð og fimm morðtilraunir.
Teikning af Erin Patterson í dómsal í nóvember. Hún er ákærð fyrir þrjú morð og fimm morðtilraunir. AP/Anita Lester/AAP

Áströlsk kona sem er ákærð fyrir að valda dauða þriggja manna með því að gefa þeim eitraða sveppi lýsti yfir sakleysi sínu þegar málið kom fyrir dómara í dag. Hún heldur því fram að hún hafi ekki eitrað vísvitandi fyrir fólkinu.

Þrír gestir létust og einn veiktist alvarlega eftir matarboð hjá Erin Patterson í Viktoríuríki í Ástralíu júlí í fyrra. Gestirnir voru foreldrar fyrrverandi eiginmanns Patterson, móðursystir hans og eiginmaður hennar. Í ljós kom að grænserkur, einn eitraðasti sveppur heims, var í réttinum sem Patterson bauð upp á, Wellington-steik.

Böndin bárust fljótt að Patterson þar sem hún slapp ein ósködduð frá máltíðinni banvænu. Hún hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu og hélt því áfram þegar hún tók formlega afstöðu til sakarefnisins fyrir dómstól í Latrobe-dal í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC

Fyrrverandi eiginmanni Patterson var boðið í matarboðið örlagaríka en hann hætti við á síðustu stundu. Lögreglan sakar Patterson um að hafa reynt að ráða honum bana þrisvar sinnum til viðbótar á milli 2021 og 2022.

Réttarhöld í málinu eiga að hefjast fyrir Hæstarétti Viktoríu í Melbourne 23. maí. Hún er ákærð fyrir morð á fyrrverandi tengdaforeldrum sínum og systur tengdamóðurinnar og tilraun til að myrða eiginmann systurinnar og fyrrverandi eiginmann sinn í fjórgang.

Patterson hefur setið í fangelsi í Melbourne frá því að hún var handtekin í nóvember. Hún hefur ekki sóst eftir því að vera látin laus gegn tryggingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×