Upp­gjör og við­töl: Kefla­vík - Stjarnan 87-78 | Heima­konur einum sigri frá úr­slitum

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Úr leik liðanna.
Úr leik liðanna. vísir/vilhelm

Keflavík lagði Stjörnuna í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Subway-deildar kvenna í körfubolta. Eftir jafnan leik seig Keflavík fram úr og vann sigur sem þýðir að staðan í einvígi liðanna er 2-1 og Keflavík aðeins einum sigri frá úrslitaeinvígi deildarinnar.

Stjarnan byrjaði leikinn af krafti og settu fyrstu sjö stig leiksins. Ásamt því að setja fyrstu stigin á töfluna þá var vörn Stjörnunar virkilega öflug og héldu þær Keflavík stiga lausum fyrstu tæpar fjórar mínúturnar. 

Um leið og Keflavík komst á blað byrjuðu þær hægt að snúa þessu sér í vil. Keflavík keyrði upp hraðan og voru fljótar að saxa á forskot gestana. Heimakonur kláruðu leikhlutan vel og leiddu 16-14 eftir fyrsta leikhluta.

Leikurinn var í járnum í öðrum leikhluta þar sem bæði lið skiptust á því að taka forystuna. Liðin skipust níu sinnum á að leiða leikinn í fyrri hálfleiknum til marks um hversu jafnt þetta var.

Það var Stjarnan sem náðu fjögura stiga forskoti fyrir hálfleikinn og leiddu því í hlé 31-35.

Þriðji leikhlutinn var gríðarlega jafn í alla staði. Bæði lið börðust fyrir öllum boltum og gáfu allt í þetta. Manni fannst svolítið eins og Stjarnan þyrfti að hafa aðeins meira fyrir þessu en Keflavík.

Stjarnan fór þó með forystuna inn í síðasta leikhlutann og leiddu leikinn með einu stigi 57-58. Það má með sanni segja að Keflavíkurhraðlestinn hafi mætt út í fjórða leikhluta því heimakonur mættu með læti út í síðasta leikhlutann og keyrðu yfir Stjörnuna.

Anna Ingunn setti tvo risastóra þrista fyrir Keflavík til að slíta sig frá Stjörnunni og eftir það varð ekki aftur snúið. Keflavík endaði á að sigla sigrinum heim 87-78.

Atvik leiksins

Anna Ingunn kom með tvo risastóra þrista á mikilvægum tímapunkti fyrir Keflavík í fjórða leikhluta sem snéri mómentinu yfir til Keflavíkur og þær hlupu með leikinn.

Stjörnur og skúrkar

Hjá Keflavík var Daniela Wallen að vanda afkastamikil og olli miklum usla fyrir vörn Stjörnunnar. Anna Ingunn Svansdóttir mætti svo með krafti út í seinni hálfleikinn og var stigahæst í liði Keflavíkur með 17 stig og það sem meira er þá komu öll stigin í seinni hálfleiknum.

Glatt á hjalla hjá Birnu Valgerði og Danielu Wallen.Vísir/Hulda Margrét

Stjörnumeginn var Katarzyna Trzeciak og Denia Davis-Stewart sem báru af. Denia Davis-Stewart var stigahæst á vellinum í dag með 30 stig og reif niður 23 fráköst með því, alvöru trölla tvenna.

Dómararnir 

Davíð Tómas Tómasson, Davíð Kristján Heiðarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson voru dómarar leiksins í dag. Rúnar Birgir Gíslason var eftirlitsdómari. Dómararnir komust vel frá sínu í dag. Leikurinn var nokkuð þægilegur að dæma og héldu þeir vel utan um leikinn í dag heilt yfir.

Stemmingin og umgjörð

Það var þokkalegasta mæting hér í Keflavík í dag. Ungliðahreyfingin í Keflavík sá um trommusláttinn í stúkunni en höfðu einn alvöru liðsstjóra með sér því Joey Drummer sat auðvitað með þeim og gaf þeim góð ráð og tók svo í kjuðana þegar leið á leikinn.

Stjörnumeginn var líka vel mætt og stutt við lið Stjörnunnar. Þar vantaði heldur ekki trommusveit sem lagði allt í sölurnar við að reyna skapa stemningu.

„Þetta er ef það er ekki komið í ljós nú þegar dúndur lið“

Sverrir Þór Sverrisson á hliðarlínunni.Vísir/Vilhelm

„Ánægður með seinni hálfleik. Sóknin small hjá okkur í seinni hálfleik eftir svona frekar mikið hikst í fyrri hálfleik þá bara góður sigur. Þá er takmarkinu náð í dag að ná í sigur í þessum leik og komast í 2-1,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur.

Vendipunkturinn í leiknum kom í fjórða leikhluta þar sem Anna Ingunn setti niður tvo risastóra þrista til að slíta Keflavíkurlið aðeins frá Stjörnunni.

„Það hjálpaði mikið og svo komu aðrir lykilmenn með góðar körfur. Varnarlega vorum við líka að gera vel á kafla sem við erum að byggja upp þetta forskot. Við vorum að fá góð stopp og skora líka. Náum þessu upp í ellefu stig að mig minnir. Það var sá munur sem við bjuggum til og náðum síðan að halda út.“

Fram að fjórða leikhluta var leikurinn í járnum.

„Þetta er bara ef það er ekki komið í ljós nú þegar dúndur lið. Við erum að spila við hrikalega sterkan andstæðing. Ég er bara himinlifandi með hvern sigur sem að við náum á móti þeim. Sama hvað hver segir og búið að stilla okkur upp af því að við unnum þær sannfærandi í vetur en þær eru búnar að vera í einhverjum svaka gír í úrslitakeppninni.“

Sverrir Þór vonast til þess að Keflvíkingar fjölmenni í Garðabæinn fyrir leik fjögur.

„Ég vill bara að Keflvíkingar fjölmenni. Ég held að þetta sé frídagur og leikurinn um miðjan dag. Stelpurnar eiga skilið að fá góðan stuðning og góða mætingu. Ég vona bara að þessir frábæru stuðningsmenn sem við eigum mæti. Við stefnum að sjálfsögðu að því að mæta með góða frammistöðu og klára þetta.“

„Þær voru bara betri en við og ekkert við því að gera“

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Vilhelm

„Mér fannst við gera rosalega vel á löngum köflum. Mér fannst þær halda sér inni í leiknum í fyrri hálfleik [Keflavík] í byrjun á mistökunum okkar. Í seinni hálfleik þá gerum við mistök í róteringum og þá hittu þær bara alltaf ofan í þegar þær voru opnar,“ sagði Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar.

Það má segja að það hafi verið ákveðin vendipunktur í leiknum þegar Anna Ingunn setti tvo risastóra þrista fyrir Keflavík sem snéri leiknum þeim í hag.

„Var ekki Emelía með einn í millitíðinni eða rétt á eftir en þeir svona sprengdu þetta upp og kláruðu þetta fyrir þær.“

Stjarnan spilaði virkilega vel í leiknum og er margt jákvætt sem þær geta tekið úr þessum leik.

„Já ég var að segja við stelpurnar að það var alveg vitað mál að eftir daginn yrði einhver yfir 2-1 og það voru ekki við í þetta skiptið. Við erum búnar að koma ansi oft hérna brautina, kíkja hingað á Sunnubrautina og alltaf bara látið flengja okkur. Í dag var þetta bara hörku skemmtun og hörku barátta lengi vel. Þær voru bara betri en við og ekkert við því að gera og þetta var bara gaman.“

Það var ákveðin tilfinning yfir leiknum að Stjarnan þurfti að hafa meira fyrir sínum stigum heldur en Keflavík og var Arnar að einhverju leyti sammála því.

„Ég held að það sé ekkert vitlaust. Bara eins og aftur, þetta er sama og þegar við komum hérna síðast. Spilum vel hérna í fyrri hálfleik og svo í seinni hálfleik þá sjáum við ekki vítalínuna. Ég held við tökum tvö víti með 0.6 sekúndur eftir í fjórða leikhluta. Þá var í fyrsta skipti brotið á okkur inni í teig, eða það var brotið á Deniu inni í teig einhvertíman í þriðja leikhluta en svo koma einhverjar 12-14 mínútur þar sem Keflvíkingar spiluðu bestu vörn sem hefur verið spiluð þegar þær brutu aldrei af sér.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira