Íslenski boltinn

Segir að móður­hlut­verkið hafi gert sig að betri leik­manni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sandra María Jessen með dóttur sína, Ellu Ylví, eftir landsleik Íslands og Wales síðasta haust.
Sandra María Jessen með dóttur sína, Ellu Ylví, eftir landsleik Íslands og Wales síðasta haust. vísir/diego

Sandra María Jessen, markahæsti leikmaður Bestu deildar kvenna í fótbolta, segist hafa orðið betri leikmaður eftir að hún eignaðist barn.

Landsliðskonan á tveggja ára gamla dóttur, Ellu Ylví, og hefur því í nægu að snúast meðfram fótboltanum. Hún segir að það gangi þó vel að halda öllum boltum lífsins á lofti.

„Ég vil meina að þetta hafi gert mig einhvern veginn og á einhvern hátt að betri fótboltakonu,“ sagði Sandra í samtali við Vísi. Hún hefur skorað sjö mörk í fyrstu þremur leikjum Þórs/KA í Bestu deildinni í sumar.

Akureyringurinn segist sjá hlutina í öðru ljósi eftir að hún varð mamma.

„Ég hef lært að kunna að meta ýmsa þætti. Ég fer inn í leiki, kannski ekki með öðruvísi hugarfar, en þakklát fyrir að geta verið enn að spila. Þetta er bara fótbolti og lífið er meira en fótbolti. Maður gerir bara það sem maður getur. Það að hafa eignast dóttur hefur kennt mér það, sömuleiðis meiðslin sem ég hef lent í,“ sagði Sandra sem hefur slitið krossband í hné í tvígang.

„Þetta er alveg púsluspil, að vera með lítið barn og heimili og hugsa um sig sem atvinnumann. Þetta er mikil vinna en mér finnst hún ganga vel. Mér finnst Þór/KA styðja mig eins vel og hægt er. Við gerum þetta öll saman hérna og ég er með rosalega gott bakland sem hjálpar mér líka. Þegar uppi var staðið held ég þetta hjálpi mér að vera betri fótboltakona.“

Sandra vann sér aftur sæti í landsliðinu eftir að hún eignaðist dóttur sína og hefur leikið níu landsleiki síðasta árið. Alls eru landsleikirnir fjörutíu og mörkin sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×