Upp­gjör og við­töl: KA-KR 1-1 | Smit stal fyrir­sögnunum enn og aftur

Árni Gísli Magnússon skrifar
Smit sá rautt.
Smit sá rautt. Vísir/Anton Brink

KA og KR gerðu 1-1 jafntefli í fimmtu umferð Bestu deilar karla á Greifavellinum á Akureyri í dag eftir leik sem bauð upp á margt og mikið.

KR byrjaði betur og Atli Sigurjónsson kom þeim röndóttu í forystu strax á þriðju mínútu þegar hann skrúfaði boltann í fjærhornið með góðu skoti fyrir utan teig eftir sending frá Ægi Jarli Jónassyni.

KA menn virtust ekki vera mættir almennilega til leiks því á sjöundu mínútu braut Ívar Örn Árnason klaufalega á Atla Sigurjónssyni og vítaspyrna dæmd. Benóný Breki Andrésson tók spyrnuna en Steinþór Már Auðunsson í marki KA er þekktur vítabani og varði spyrnuna.

KR var betri aðilinn megnið af fyrri hálfleik en leikurinn var endanna á milli og alltaf mikill hasar í gangi. Dómari leiksins flautaði mikið, KA mönnum til mikillar gremju, og leikurinn var því mikið stopp sem virtist henta KR liðinu ágætlega sem fór með eins marks forystu inn í hálfleikinn.

Hallgrímur Mar Steingrímsson kom inn á fyrir heimamenn í hálfleik en þetta eru hans fyrstu mínútur í sumar eftir að hafa glímt við erfið veikindi. Það tók Hallgrím ekki nema um fimm mínútur að búa til dauðafæri en þá komst hann upp að endamörkum og lagði boltann út á Elfar Árna sem var í færi inn við markteig en varnarmaður KR henti sér fyrir skotið á síðustu stundu.

KA gerði kall eftir vítaspyrnu oftar en einu sinni í leiknum en fengu ekkert fyrir sinn snúð. Á 73. mínútu snérist leikurinn þeim í hag þegar Guy Smit fékk sitt annað gula spjald fyrir að tefja í markspyrnu. Einungis tveimur mínútum áður fékk hann gult spjald fyrir að brjóta á Ásgeiri Sigurgeirssyni utan teig þegar Ásgeir var gott sem sloppinn frá hjá honum og markið autt. KA menn voru einnig ósáttir þá að dómarinn hafi flautað en ekki leyft færinu að klárast.

KR lék því manni fleiri út leikinn og og KA nýtti sér liðsmuninn strax fimm mínútum síðar þegar Ásgeir Sigurgeirsson skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Hans Viktori Guðmundssyni.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að sækja sigurmark og fengu nokkur góð færi til þess en allt kom fyrir ekki og 1-1 jafntefli niðurstaðan. Mörg spjöld fóru á loft í dag og mikil læti urðu eftir leik og smávægilegar stympingar meðal leikmanna sem leystist þó á endanum.

Atvik leiksins

Guy Smit var alltaf líklegur í þennan lið og fær að eiga hann. Hann fær sitt seinna gula spjald fyrir að tefja á 73. mínútu en tveimur mínútum áður fékk hann gult spjald fyrir brot utan teigs sem hefði mögulega getað verið beint rautt. Ofan á allt þetta hafði hann fengið tiltal fyrir leiktöf áður í leiknum.

Stjörnur og skúrkar

Atli Sigurjónsson var frábær í liði KR en auk þess að skora mark þá fiskaði hann víti og var heilinn í flestum sóknaraðgerðum liðsins. Axel Óskar Andrésson var mjög öflugur í vörninni og gaman að sjá þessa týpu af hafsent í deildinni.

Hjá KA var Ásgeir Sigurgeirsson manna öflugastur og var óheppinn að skora ekki annað mark. Daníel Hafsteinsson og Hans Viktor Guðmundsson stóðu einnig vel fyrir sínu. Steinþór Már Auðunsson á skilið hrós í markinu en hann varði víti og nokkur færi til viðbótar til að halda KA inni í leiknum.

Skúrkurinn er Guy Smit fyrir að láta reka sig útaf og skilja liðsfélaga sína eftir 10 á vellinum. Betri útskýringar á hans parti í leiknum er að finna í liðnum hér að ofan.

Dómarinn

Twana Khalid Ahmed er ekki vinsælasti maðurinn á brekkunni eftir leikinn í dag. Hann flautaði í gríð og erg, jafnvel þó snertingin væri lítil sem engin, og KR-ingar nýttu sér það til hins ýtrasta með því að falla auðveldlega við litla snertingu og fá aukaspyrnu. 

Fjölmörg gul spjöld fóru á loft á bæði lið og sum fyrir afar litlar sakir. Vítaspyrnudómurinn var hárréttur og rauða spjaldið á Guy Smit á sennilega rétt á sér.

Stemning og umgjörð

Það var nokkuð vel mætt í stúkuna í dag en fram að rauða spjaldinu sein í leiknum var stemningin lítil og mestallt sem heyrðu voru hneykslunarköll sem beintust að dómara leiksins. Eftir rauða spjaldið lifnaði heldur betur yfir stúkunni og fólk fór að hvetja liðið sem skilaði jöfnunarmarki.

„Eins og leikurinn byrjaði þá eru þetta náttúrulega tvö töpuð stig”

Atli Sigurjónsson í leik með KR.Vísir/Hulda Margrét

Atli Sigurjónsson, leikmaður KR, var sáttur með stig úr því sem komið var eftir 1-1 jafntefli gegn KA fyrir norðan í dag.

„Bara sterkt að ná að klára þetta og fá eitt stig en eins og leikurinn byrjaði þá eru þetta náttúrulega tvö töpuð stig.”

Atli er uppalinn Þórsari og leiðist eflaust ekki að skora á móti KA.

„Það var mjög gaman sko. Byrjunin á leiknum var mjög sterk og mér fannst við bara vera á leiðinni að valta yfir þá en síðan byrjunin á seinni hálfleik, byrjum þetta ekki nógu vel, og síðan eftir rauða spjaldið er þetta bara basl.”

Atli fékk gult spjald eftir tæpt kortér en mikill hasar var í leiknum og erfitt að vera á gulu spjaldi stóran hluta hans.

„Já það hélt mér á mottunni í þessum æsingi”, sagði Atli einfaldlega.

Hvað vantaði upp á til að sækja öll stigin þrjú?

„Bara hvernig við komum út í seinni hálfleikinn. Allt sem við vorum að gera vel í fyrri hálfleik það einhvernveginn fórum við ekki með yfir í seinni hálfleikinn og seinni hálfleikurinn var bara ekki nógu góður fram að rauða spjaldinu og svo náttúrulega erfitt eftir það.”

KR var með nokkuð góð tök á leiknum þangað til rauða spjaldið á Guy Smit, markmann KR, kom á 73. mínútu sem var vendipunktur leiksins.

„Við erum með ágæt tök á honum þrátt fyrir að spilamennskan hafi ekkert verið frábær þannig það er bara margt jákvætt í þessum leik.”

Mikil læti urðu meðal leikmanna um leið og flautað var til leiksloka og smá stympingar komu til. Atli virðist þó hafa misst af látunum, enda farinn af velli fyrir leikslok.

„Ég missti af þessu, ég var var að fara sækja stelpurnar mínar á hliðarlínuna og ég bara missti af þessu.”


Tengdar fréttir

„Er með góða til­finningu eftir að hafa komið til baka“

KA og KR gerðu 1-1 jafntefli fyrir norðan í dag í leik sem hafði upp á mikið að bjóða. KR komst yfir strax á 3. mínútu og misnotuðu vítaspyrnu stuttu seinna. KA jafnaði svo leikinn á 77. mínútu en þá var Guy Smit, markvörður KR, nýfarinn af velli með sitt annað gula spjald. Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var nokkuð brattur eftir leik og leit á björtu hliðarnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira