Upp­gjör: Grinda­vík - Kefla­vík 102-94 | Gulir unnu fyrsta bar­dagann

Smári Jökull Jónsson skrifar
grindavík villi
VÍSIR/VILHELM

Grindavík vann 102-94 sigur á Keflavík í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Subway-deild karla í kvöld. Bæði lið misstu lykilmenn af velli í leiknum og er óvíst með þátttöku þeirra í næsta leik.

Það var mikil eftirvænting fyrir fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvíginu í kvöld og leikurinn stóð svo sannarlega undir væntingum. Bæði lið náðu mest átta stiga forystu í leiknum sem segir okkur ýmislegt um hversu jöfn þau eru og hversu spennandi leikurinn var.

Grindvíkingar voru oftar með frumkvæðið en Keflvíkingar misstu þá aldrei langt fram úr sér og náðu sjálfir forystunni inn á milli. Staðan í hálfleik var 56-54 fyrir Grindavík eftir ótrúlega þriggja stiga körfu DeAndre Kane um leið og flautan gall í lok hálfleiksins. Allt galopið.

Remy Martin, sem er langbesti sóknarmaður Keflavíkur, fór meiddur af velli í fyrri hálfleik og var fluttur á sjúkrahús. Fjarvera hans breytti eðlilega miklu og í seinni hálfleik var tilfinningin sú að Grindvíkingar væru að fara að ná áhlaupi en stór þriggja stiga skot gestanna komu í veg fyrir það.

Undir lokin var spennan svo áþreifanleg. Liðin skiptust á að skora allt þar til Dedrick Basile stal bolta af Keflavík og kom Grindavík í 96-91. Þrátt fyrir að Jaka Brodnik hafi sett niður þriggja stiga skot í kjölfarið var það Basile sem kláraði leikinn með tveimur frábærum körfum sem tryggðu Grindvíkingum sigurinn.

Lokatölur 102-94 og Grindavík því komið í forystu í einvíginu.

Atvik leiksins

Remy Martin meiddist í fyrri hálfleik í kvöld og þeir sem hafa eitthvað fylgst með Subway-deildinni í vetur vita hversu mikilvægur hann er fyrir Keflavík. Martin var borinn af velli og mátti sjá angistarsvipinn á stuðningsmönnum Keflavíkur í stúkunni. Óljóst er hversu alvarleg meiðslin eru en fyrstu fréttir eru að betur hafi farið en virtist í upphafi.

Í seinni hálfleik gerðist svo annað risastórt atvik. DeAndre Kane fékk þá tæknivillu fyrir flopp og þar sem hann var búinn að fá óíþróttamannslega villu fyrr í leiknum þýddi það að hann var rekinn úr húsi. Það tók tíma að koma Kane af velli og hann var allt annað en sáttur. Það er spurning brottvísunin muni hafa afleiðingar og hann jafnvel dæmdur í leikbann.

Stjörnur og skúrkar

Dedrick Basile tók af skarið undir lok leiksins og setti stigin sem skildi liðin að. Keflvíkingar réðu ekkert við hann þegar hann keyrði á körfuna en þetta er ekki í fyrsta sinn í vetur sem hann siglir sigri í höfn fyrir Grindvíkinga.

Það verður eðlilega mikið rætt um tæknivilluna sem Kane fékk í síðari hálfleik og margir eflaust tilbúnir að gagnrýna hann fyrir það atvik. Þar sem Grindavík vann sigur finnst mér það samt ekki duga fyrir skúrkstimpilinn. Verði hann dæmdur í leikbann skulum við taka stöðuna á ný.

Dómararnir

Það munaði ekki miklu að dómararnir misstu leikinn úr höndum sér. Þetta var erfiður leikur að dæma en væntanlega verður mikið rætt um atvikið þegar Kane ætlaði að fiska ruðning en fékk tæknivillu fyrir leikaraskap.

Það var klárlega snerting frá Danero Thomas en Kane ætlaði sér að sækja ruðning og fór auðveldlega niður. Línan þarna á milli er þunn og mér finnst harður dómur að dæma tæknivillu á Kane. Svona atvikum hefur að minnsta kosti oft verið sleppt án þess að dómararnir flauti.

Stemmning og umgjörð

Það var frábær stemmning í Smáranum í kvöld og stuðningsmenn beggja liða í miklu stuði. Stúkurnar voru orðnar þéttsetnar töluvert fyrir leik og Grindvíkingar stóðu sig líka vel með ljósasýningu þegar heimaliðið var kynnt inn.

Ég býst ekki við neinu öðru en að þetta einvígi verði veisla fyrir körfuboltaáhugamenn og ég held það verði enginn svikinn af því að kíkja til Keflavíkur á laugardag þegar liðin mætast á ný.

Viðtöl

„Ódýrt að vera rekinn út af fyrir þetta“

Valur Orri Valsson sagði hafa verið haustbrag á leik Grindavíkur á köflum þegar liðið lagði Keflavík í kvöld. Honum fannst brottrekstur DeAndre Kane ódýr.

„Þetta var hörkuleikur á milli tveggja góðra liða. Mér fannst við mæta óstilltir til leiks, pínu haustbragur á okkur á köflum. Vörnin var ágæt í fjórða leikhluta og tryggði okkur sigur,“ sagði Valur Orri í viðtali við Andra Má Eggertsson eftir leik í kvöld.

Valur Orri útskýrði haustbraginn með því að langt væri síðan Grindavík spilaði síðast.

„Ellefu dagar frá síðasta leik, ég veit það ekki. Það vantaði bara einhverja gleði fannst mér.“

Valur Orri Valsson kom sterkur inn af bekknum hjá Grindavík líkt og oft áður.Vísir/Vilhelm

Valur Orri sagði varnarleik Grindavíkur í fjórða leikhluta hafa verið góðan og að þeir hafi gert Keflavík erfitt fyrir í teignum.

„Það var held ég vörnin. Við náðum að halda þeim algjörlega fyrir utan þriggja stiga línuna og þeir hittu mikið en voru ekki að fá neitt auðvelt inni í teignum.“

Hann sagði brottrekstur DeAndre Kane hafa gefið Grindvíkingum aukinn kraft.

„Auka „boozt“ held ég frekar en eitthvað annað. Það var leiðinlegt að missa hann útaf og ódýrt að hann hafi verið rekinn út af fyrir þetta. En það gaf okkur kraft og þetta var flott.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira