Innlent

Hús rýmd á Ísa­firði vegna snjó­flóða­hættu

Árni Sæberg skrifar
Seljalandshlíð er rétt vinstra megin við miðju á myndinni.
Seljalandshlíð er rétt vinstra megin við miðju á myndinni. Vísir/Einar

Ákveðið hefur verið að rýma hús á reit 9 undir Seljalandshlíð á Ísafirði frá klukkan 16 í dag, fimmtudag, vegna hættu á snjóflóðum.

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að spáð sé norðaustan til norðan stormi með snjókomu á norðanverðum Vestfjörðum í nótt og á morgun. Á morgun, föstudag, sé gert ráð fyrir norðaustan til norðan hríð, skafrenningi með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum og að fleiri vegir undir bröttum fjallshlíðum geti lokast vegna snjóflóða. Gert sé ráð fyrir að veðrið gangi niður aðfaranótt laugardags og að þá kólni.

Rýmingarkort fyrir Ísafjörð.Veðurstofa Íslands

Lítið snjóflóð hafi fallið úr Innra-Bæjargili ofan Flateyrar í nótt og nokkur snjóflóð munu hafa fallið niður í sjó í norðanverðum Súgandafirði um hádegisbil í dag. Einnig hafi snjóflóð fallið úr Raknadalshlíð við Patreksfjörð í morgun. Ekki hafi borist fréttir af fleiri snjóflóðum, en gera megi ráð fyrir að flóð hafi fallið víða til fjalla án þess að frést hafi af því vegna þess að skyggni er lélegt og margir vegir lokaðir.

Bent er á að snjóflóðahætta geti verið á vegum milli þéttbýliskjarna. Flateyrarvegur og Súðavíkurhlíð séu báðir lokaðir vegna snjóflóðahættu og ófærðar. Auk þess sé mögulegt að snjóflóð falli á veg um Eyrarhlíð milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Þegar líður á gæti snjóflóðahætta aukist á fleiri stöðum, svo sem á Skutulsfjarðarbraut.

Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgist vel með aðstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×