Erlent

Forseti Tékklands segir trans fólk „viðbjóðslegt“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hinsegin fólk í Tékklandi óttast að þarlend stjórnvöld muni feta í fótspor Ungverja.
Hinsegin fólk í Tékklandi óttast að þarlend stjórnvöld muni feta í fótspor Ungverja. epa/Martin Divisek

Milos Zeman, forseti Tékklands, kallaði trans fólk „viðbjóðslegt“ í viðtali við CNN Prima News í gær. Tilefnið var umræða um ný lög í Ungverjalandi, sem banna allt kennsluefni sem er talið „auglýsa“ samkynhneigð og hugmyndir um að fólk geti verið annars kyns en líffræðilegt kyn gefur til kynna.

Lagasetningunni hefur verið harðlega mótmælt af öðrum Evrópuþjóðum en Zeman sagði öll afskipti af innanríkismálum annarra Evrópusambandsríkja væru pólitísk mistök og sagðist sammála afstöðu Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.

„Ég get skilið homma, lesbíur og þar fram eftir götunum. En veistu hverja ég skil bara alls ekki? Þetta trans fólk,“ sagði Zeman. Sér þætti trans fólk „viðbjóðslegt“.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í síðustu viku að lögin fælu tvímælalaust í sér mismunun og gengu gegn gildum sambandsins um jafnrétti og mannlega reisn, sem væru grundvallarmannréttindi.

Hinsegin fólk í Tékklandi er sagt óttast að þarlend stjórnvöld muni feta í fótspor Ungverja en samkvæmt skýrslu frá því í fyrra þurfa tékkneskir ríkisborgarar að gangast undir kynleiðréttingu og ófrjósemisaðgerð áður en þeir geta látið skrá rétt kyn í þjóðskrá.

CNN greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×