Handbolti

Tíunda tapið í röð hjá Íslendingaliði Balingen

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Oddur Grétarsson skoraði sex fyrir Balingen í kvöld.
Oddur Grétarsson skoraði sex fyrir Balingen í kvöld. Getty/Tom Weller

Íslendingalið HBW Balingen-Weilstetten mátti þola sitt tíunda tap í röð er liðið heimsótti Stuttgart í þýska handboltanum í kvöld.

Fyrir leik kvöldsins var þegar orðið ljóst ð Balingen væri á leið niður um deild, en Stuttgart gat endanlega tryggt áframhaldandi veru í deild þeirra bestu með sigri í kvöld.

Leikurinn var í góðu jafnvægi framan af, en heimamenn í Stuttgart náðu mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik. Munurinn á liðunum var þó aðeins tvö mörk þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja, staðan 14-12.

Heimamenn virtust svo hægt og rólega vera að stinga af í síðari hálfleik og náðu mest sex marka forskoti í stöðunni 24-18. Þá tóku gestirnir hins vegar við sér og náðu í tvígang að minnka muninn niður í eitt mark. Nær komust gestirnir þó ekki og niðurstaðan varð þriggja marka sigur Stuttgart, 30-27.

Oddur Grétarsson skoraði sex mörk fyrir Balingen í kvöld og Daníel Þór Ingason bætti tveimur mörkum við. Balingen situr sem fyrr sem fastast á botni deildarinnar með ellefu stig þegar liðið á þrjá leiki eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×