Innlent

Um­hverfis- og lofts­lags­málin „Icesa­ve okkar tíma“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Heimir Már, Jón og Halla T skoða loftmynd af Bessastöðum.
Heimir Már, Jón og Halla T skoða loftmynd af Bessastöðum. Vísir/Vilhelm

„Nú er til dæmis mál sem brennur mjög augljóslega á ungu fólki í dag og ætti ekki að hafa farið framhjá neinum; umhverfis- og loftslagsmálin. Ég er búinn að vera að standa í þessari kosningabaráttu núna í einhverjar vikur og ég hef aldrei verið spurður út í það.“

Þetta sagði Jón Gnarr í kappræðum forsetaframbjóðenda á Stöð 2 í gær, þegar málefni unga fólksins og möguleikar forseta á að koma til móts við unga fólkið voru til umræðu.

Jón sagðist hafa fengið ótal margar spurningar um málskotsréttinn, sem hann gerði þó ekki ráð fyrir að þurfa nokkurn tímann að beita sem forseti, en engar um umhverfis- og loftslagsmál.

Jón hafði áður nefnt að forseti gæti verið áhrifavaldur með því að halda ákveðnum málum á lofti og það væri nákvæmlega það sem hann væri að gera með því að nefna loftslagsmálin til sögunnar.

„Og það er stærsta kynslóða réttlætismál,“ sagði Halla Tómasdóttir, „vegna þess að við getum haldið áfram að haga okkur illa en það sem bíður barnanna okkar þá að takast á við; það er bara ekki sanngjarnt. Þetta er Icesave okkar tíma.“

Halla Hrund Logadóttir sagði mikilvægt í þessu samhengi að forsetinn væri liðsmaður unga fólksins og ynni jafnt og þétt að málum.

„Og það er þannig sem ég horfi á embættið; það má ekki bara nýta það til að klippa á einhverja borða, heldur að vera öflugur liðsmaður og fylgja verkefnum sem brenna á ungu fólki eftir, yfir lengri tíma.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×