Skoðun

Katrínu á Bessa­staði

Brynja Þorbjörnsdóttir skrifar

Það er leitt að valda vonbrigðum þeim sem hafa farið mikinn í að halda því fram að það séu bara sægreifar, innvígðir sjálfstæðismenn, valdaklíkan og erlend mafía, sem styðji framboð Katrínar, svo fátt eitt sé nefnt sem hefur verið dregið á flot til að reyna að draga niður framboð Katrínar og alla þá sem dirfast að lýsa yfir stuðningi við hana.

Ég kemst samt ekki hjá því þar sem ég er bara almennur borgari, bý í sveit og á ekkert undir mér. Ástæðan fyrir því að ég mun kjósa Katrínu og mæla með henni er einföld. Hún er lang hæfasti frambjóðandinn og framkoma hennar er alltaf okkur til sóma.

Hún hefur sýnt það í störfum sínum sem forsætisráðherra að hún getur leitt saman mjög ólíka hópa. Þrátt fyrir að hafa verið forsætisráðherra gat hún ekki ráðið öllu og allir flokkar þurfa að gefa eftir, jafnvel sín hjartans mál. Ég efa ekki að það hefur verið henni þungbært en hún hefur séð að hún gæti frekar haft áhrif á stefnu ríkisins með því að vera í ríkisstjórn en utan hennar.

Styrkleiki Katrínar er ekki hvað síst að hún á svo gott með að leiða saman ólíka hópa til að vinna að sameiginlegri niðurstöðu eins og Vilhjálmur Birgisson hefur komið inn á. Þekking hennar á stjórnsýslu landsins er betri en allra hinna frambjóðendanna til samans og tengsl hennar við erlenda ráðamenn munu nýtast henni til að koma málefnum Íslands á framfæri. Látum ekki skítkast annarra hafa áhrif á okkur, kjósum þann frambjóðanda sem bestur er fyrir land og þjóð, Katrínu Jakobsdóttur á Bessastaði!

Höfundur er búsettur í Hvalfjarðarsveit.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×