Fótbolti

Gæti haldið á­fram eftir allt saman

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tuchel hefur átt erfiðan vetur.
Tuchel hefur átt erfiðan vetur. Getty

Fregnir frá Þýskalandi herma að líklegast sé að Thomas Tuchel haldi kyrru fyrir hjá Bayern München og verði áfram þjálfari liðsins. Löngu er ákveðið að hann yfirgefi félagið í sumar.

Bayern München tilkynnti fyrr í vor að Tuchel myndi hætta störfum sem þjálfari félagsins í sumar. Yfirstandandi leiktíð er sú fyrsta í háa herrans tíð sem félagið lýkur án þess að vinna titil.

Liðið var búið að vinna þýska meistaratitilinn ellefu ár í röð fyrir leiktíðina í ár en Bayer Leverkusen vann sinn fyrsta titil í sögunni.

Liðið féll út í 2. umferð þýska bikarsins eftir tap fyrir þriðju deildarliði Saarbrücken og tapaði í þýska ofurbikarnum fyrir RB Leipzig í upphafi leiktíðar. Eina von liðsins um titil var í Meistaradeild Evrópu en sú varð að engu eftir að liðið féll úr leik fyrir Real Madrid í undanúrslitum á dögunum.

Í það minnsta fjórir kostir hafa hafnað því að taka við þjálfarastarfinu af Tuchel í sumar. Xabi Alonso, Ralf Rangnick, Julian Nagelsmann og Oliver Glasner.

Stjórnarmenn hjá Bayern eru nú sagðir hallast að því að halda Tuchel hreinlega í starfi, þrátt fyrir slakan árangur. Íþróttastjórar Bayern, Max Eberl og Christoph Freund, hallist báðir að því að halda Tuchel.

Tuchel er sagður tvístíga, hann njóti einhvers stuðnings í leikmannahópi félagsins, en vilji ekki halda starfinu áfram nema öll stjórn félagsins styðji áframhaldandi setu hans á stjórastóli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×