Innlent

Guðni heldur utan til að kveðja Margréti Þór­hildi

Atli Ísleifsson skrifar
Margrét Þórhildur og Guðni Th. Jóhannesson fyrr í dag.
Margrét Þórhildur og Guðni Th. Jóhannesson fyrr í dag. Danska konungshöllin

Guðni Th. Jóhannesson forseti heldur til Danmerkur í dag þar sem hann mun eiga kveðjufund með Margréti Þórhildi Danadrottningu. Leiðin liggur sömuleiðis til Eistlands og Finnlands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands. Margrét Þórhildur afsalaði sér krúnunni í janúar og senn líður að lokum forsetatíðar Guðna, en nýr forseti lýðveldisins verður kjörinn fyrsta dag júnímánaðar og mun taka við embættinu í ágúst.

„Á þriðjudaginn flýgur forseti til Tallinn og á fund með forseta Eistlands, Alar Karis. Daginn eftir fer hann í boði Karis í ferð um nyrsta hluta Eistlands, m.a. til borgarinnar Narva á landamærum Eistlands og Rússlands.

Á fimmtudaginn tekur forseti þátt í opnunarpallborði Lennart Meri ráðstefnunnar í Tallinn ásamt forseta Eistlands, varaforseta Evrópuráðsins og fleirum. Viðburðurinn er haldinn árlega og snýst öðru fremur um utanríkis- og öryggismál. Ráðstefnan er kennd við Lennart Meri sem var utanríkisráðherra Eistlands þegar landið endurheimti sjálfstæði sitt við hrun Sovétríkjanna og forseti landsins árin 1992‒2001.

Á föstudag heldur forseti til Helsinki og á þar fund með forseta Finnlands, Alexander Stubb. Þaðan fer hann til Oulu í norðurhluta landsins. Þar verður forseti sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við háskóla borgarinnar og flytur hátíðarræðu af því tilefni.

Forseti kemur til Íslands á sunnudag,“ segir í tilkynningunni.

Fréttin var uppfærð eftir að danska konungshöllin birti mynd af þeim Margréti Þórhildi og Guðna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×