Enski boltinn

Ipswich Town aftur upp í ensku úrvalsdeildina eftir 22 ára fjar­veru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Omari Hutchinson fagnar seinna marki Ipswich Town með heljarstökki við mikinn fögnuð stuðningsmanna liðsins.
Omari Hutchinson fagnar seinna marki Ipswich Town með heljarstökki við mikinn fögnuð stuðningsmanna liðsins. Getty/Stephen Pond

Ipswich Town tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni í dag með 2-0 sigri á Huddersfield í lokaumferð ensku b-deildarinnar.

Það eru liðin 22 ár síðan Ipswich spilaði í deild þeirra bestu eða frá 2001-02 tímabilinu.

Ipswich nægði bara eitt stig til að fylgja Leicester City upp í úrvalsdeildina en Leicester höfðu tryggt sér sigur í deildinni fyrir nokkru.

Wes Burns (27. mínúta) og Omari Hutchinson (48. mínúta) skoruðu mörk Ipswich í leiknum. Ipswich er að vinna sig upp um deild annað árið í röð því liðið var í ensku C-deildinni tímabilið 2022-23.

Það verður síðan spilað um þriðja og síðasta sætið í umspilinu en þangað komust Leeds, Southampton, West Brom og Norwich.

Huddersfield féll úr deildinni ásamt Rotherham og Birmingham. Birmingham hefur ekki verið neðar í þrjá áratugi. Birmingham vann 1-0 sigur á Norwich en það dugði ekki til þar sem að Plymouth vann á sama tíma 1-0 sigur á Hull.

Liðin sem enda í 17. til 22. sæti deildarinnar unnu öll leiki sína í lokaumferðinni og langneðsta liðið, Rotherham, vann 5-2 sigur á Cardiff City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×