Fótbolti

Þórir bæði með mark og stoðsendingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Jóhann Helgason fagnar hér marki sínu fyrir Eintracht Braunschweig í dag.
Þórir Jóhann Helgason fagnar hér marki sínu fyrir Eintracht Braunschweig í dag. Getty/Daniel Löb

Þórir Jóhann Helgason var á skotskónum með liði Eintracht Braunschweig í þýsku b-deildinni í dag.

Eintracht Braunschweig gerði þá 3-3 jafntefli á útivelli á móti Greuther Furth eftir að hafa misst niður 2-0 forystu og spilað allan seinni hálfleikinn manni færri.

Þórir skoraði fyrsta mark leiksins og lagði síðan upp jöfnunarmarkið ellefu mínútum fyrir leikslok.

Þetta var fyrsta mark Þóris síðan að hann skoraði á móti St. Pauli í fyrstu umferðinni í byrjun septembermánaðar. Hann er með tvö mörk og fjórar stoðsendingar í 26 deildarleikjum á leiktíðinni.

Stigið skilar Braunschweig liðinu upp í 14. sæti með 35 stig en liðið er þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Þórir kom Braunschweig í 1-0 á 13. mínútu. Hann skoraði með hægri fótar skoti úr miðjum vítateignum eftir sendingu frá Marvin Rittmüller. Tveimur mínútum síðar var staðan orðin 2-0 eftir mark frá Rayan Philippe.

Þetta leit því vel út fyrir Braunschweig sem þurfti nauðsynlega á stigunum að halda í baráttunni fyrir sæti sínu í deildinni.

Greuther Furth minnkaði muninn á 33. mínútu og varð síðan manni fleiri í uppbótatíma fyrri hálfleiks þegar Robin Krausse fékk beint rautt spjald.

Braunschweig spilaði því allan seinni hálfleikinn tíu á móti ellefu.

Þórir og félagar héldu út fram á 68. mínútu þegar Robert Wagner jafnaði metin.

Greuther Furth komst síðan í 3-2 á 76. mínútu en Braunschweig liðið gafst ekki upp.

Þórir lagði upp jöfnunarmarkið fyrir Rayan Philippe á 79. mínútu. Það dugði liðinu til að ná jafnteflinu.

Sveinn Aron Guðjohnsen spilaði síðustu þrettán mínúturnar í 1-2 tapi Hansa Rostock á heimavelli á móti Karlsruher SC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×