Viðskipti innlent

Minnsta verð­bólga í rúm tvö ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um rúm ellefu prósent frá mars til apríl.
Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um rúm ellefu prósent frá mars til apríl. Vísir/Vilhelm

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,55 prósent á milli mars og apríl. Verðbólga undanfarinna tólf mánaða mælist nú sex prósent og heldur áfram að hjaðna.

Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 1,7 prósent á tímabilinu samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands. Áhrif hans á vísitöluna nam 0,32 prósentum. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 11,3 prósent sem hafði 0,2 prósent áhrif á vísitöluna. 

Þegar húsnæðisliðurinn er felldur út úr vísitölunni nam verðbólga 0,3 prósent á milli mánaða. Síðastliðið ár hefur vísitala neysluverð án húsnæðis hækkað um 3,9 prósent.

Þegar mest lét mældist verðbólga á ársgrundvelli 10,2 prósent í febrúar í fyrra. Síðan þá hefur hún hjaðnað nokkuð. Verðbólga hefur ekki mælst minni frá því í janúar 2022.

Skýring Seðlabankans á hvað verðbólga er:

Verðbólga er skilgreind sem viðvarandi hækkun almenns verðlags og er mæld sem tólf mánaða breyting vísitölu neysluverðs. Sú vísitala mælir meðalverð á vörum og þjónustu sem heimili á Íslandi kaupa í hverjum mánuði. Verðbólga felur í sér að verðgildi og kaupmáttur peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×